Skvetti bjór yfir dyravörð og barði með veski

Kona skvetti bjór yfir dyravörð eftir að hafa verið vísað …
Kona skvetti bjór yfir dyravörð eftir að hafa verið vísað út af veitingastað í gær. mbl.is/Ari

Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru ekki af skornum skammti í nótt og í gærkvöldi enda mikið um að vera eftir bæði Eurovision og sveitarstjórnarkosningar. 

Lætin byrjuðu snemma en klukkan korter í tíu barst lögreglu tilkynningu um að kona hefði ráðist að dyraverði í miðbænum eftir að hafa verið vísað út af veitingastað. Konan brást illa við og skvetti bjór yfir dyravörðinn og byrjaði að berja með veski. Hún var færð í tök og var haldið af dyraverði þar til lögregla kom. Þá færðist ró yfir hana og hún beðin um að yfirgefa staðinn.

Þá fékk lögregla einnig tilkynningu um slys í miðbænum eftir að kona datt um rafmagnshlaupahjól sem lá á gangstéttinni. Endaði hún með skurð fyrir ofan auga og var flutt með sjúkrabifreið á bráðadeild.

Í Breiðholtinu var maður kýldur í andlitið með þeim afleiðingum að hann missti tönn. Tilkynning barst rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi en þegar lögregla kom á vettvang hafði árásarmaðurinn farið en sá sem ráðist var að vildi enga aðstoð.

Þá hafði lögregla afskipti af nokkrum ökumönnum sem voru grunaðir um akstur undir áhrifa, auk þess sem bifreið var stöðvuð eftir að hafa mælst á 128 km/klst. á götu sem heimilaði akstur 80 km/klst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert