14 líkamsárásir þar af fjórar alvarlegar

mbl.is/Ari

Fjórtán líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina, þar af fjórar alvarlegar. Þá var farið í þrjú útköll vegna heimilisofbeldis og eitt vegna ráns. 

Þetta kemur fram í yfirliti lögreglunnar. 

Þá bárust tvær tilkynningar um innbrot og einnig komu nokkur fíkniefnamál á borð lögreglu um helgina, en m.a. var ein kannabisræktun stöðvuð í umdæminu og lagt hald á um hundrað kannabisplöntur.

Þá voru fjarlægð skáningarmerki af tugum ökutækja, sem voru ótryggð og/eða óskoðuð. Og að venju voru líka fjölmörg mál þar sem aðstoða þurfti fólk sem var ölvað og/eða í annarlegu ástandi.

Lögreglan greinir ennfremur frá því, að 22 hafi verið teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Tólf þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík, sjö í Kópavogi og einn í Hafnarfirði, Garðabæ og á Seltjarnarnesi.

Þrír voru teknir á föstudagskvöld, átta á laugardag, níu á sunnudag og tveir aðfaranótt mánudags. Þetta voru nítján karlar á aldrinum 18-46 ára og þrjár konur, 30-58 ára. Þrír þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og fjórir hafa aldrei öðlast ökuréttindi. Til viðbótar stöðvaði lögreglan för fjögurra réttindalausra ökumanna og var þeim öllum gert að hætta akstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert