„Alger bylting í þjónustu við þennan hóp“

Frá vígslu húsnæðisins. Frá vinstri: Pétur J. Haraldsson Oddfellow, Vilborg …
Frá vígslu húsnæðisins. Frá vinstri: Pétur J. Haraldsson Oddfellow, Vilborg Jónsdóttir Parkinsonsamtökunum, Guðmundur Eiríksson stór- sír Oddfellow, Vilborg Gunnarsdóttir Alzheimersamtökunum og Steindór Gunnlaugsson frá Oddfellow. mbl.is/Árni Sæberg

Um áramótin var sett á laggirnar ný þjónusta hjá Alzheimersamtökunum fyrir fólk sem nýlega hefur greinst eða er stutt gengið með Alzheimersjúkdóminn og aðra heilabilunarsjúkdóma.  

Þjónustan er veitt í Lífsgæðasetrinu í Hafnarfirði og kallast Seiglan en þar eru samtökin einnig til húsa ásamt fleirum. Um er að ræða húsið þar sem St. Jósefsspítali starfaði og er þekkt kennileiti í Hafnarfirði. 

Aðstaðan var vígð með formlegum hætti í síðasta mánuði. Oddfellowreglan á Íslandi lagði fram framkvæmdir að andvirði 180 milljónir króna sem ganga upp í leigu á húsnæðinu til næstu 15 ára. 

„Það hefur vantað þjónustu sem fólk getur fengið fljótlega eftir greiningu. Það hefur verið sáralítil eftirfylgni fyrir utan einhvers konar göngudeildareftirfylgni. Allar rannsóknir sýna að hvers konar virkni hægir á sjúkdómnum.  Hvort sem það er félagsleg, líkamleg eða vitræn virkni. Um leið og fólk fær greiningu þá er rosalega mikilvægt að halda sér virkum. Það á auðvitað bara við um okkur öll.

Fólkið kemur og fer að vild og fer í þá virkni sem heillar hvern og einn. Fyrir vikið er krefjandi fyrir okkur að vera með nógu spennandi þjónustuframboð. Því miður þá kemur mjög fljótt fram skortur á frumkvæði og framtakssemi í þessum sjúkdómi. Það getur til dæmis birst hjá þeim í sem eru í vinnu, að fólk getur ekki verið með marga bolta á lofti í einu. Þegar fólk finnur að það hefur ekki sömu hæfni og áður til að framkvæma hluti þá er hætt við að fólk dragi sig í hlé. Það er afar slæmt varðandi framþróun þessa sjúkdóms. 

Við höfum fengið þau viðbrögð frá skyldmennum þeirra sem eru byrjuð að koma til okkar að það greini jákvæða breytingu. Sjálfstraustið eykst þegar þú finnur að þú ert ekki eins veikur og þú hélst. Við erum í skýjunum yfir þeim viðbrögðum sem við höfum fengið,“ sagði Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna í samtali við mbl.is 

Ýmis afþreying í boði

„Stjórn Alzheimersamtakanna hafði lengi stefnt að því að koma sér upp einhvers konar húsi, bæði fyrir starfssemi samtakanna en einnig til að bjóða upp á þjónustu fyrir fólk sem er nýgreint eða stutt komið með sjúkdóminn. Samtökin reka nú þegar þrjár sérhæfða dagþjálfun fyrir fólk sem er orðið veikara og hafa gert í mörg ár. Þar er um að ræða einstaklinga sem geta búið heima hjá sér en geta ekki verið ein heima.  Eru þetta Maríuhús, Fríðuhús og Drafnarhús.

Hér má sjá hluta aðstöðunnar sem er öll hin glæsilegasta …
Hér má sjá hluta aðstöðunnar sem er öll hin glæsilegasta að sögn Vilborgar. mbl.is/Árni Sæberg

Í þjónustumiðstöðinni fengum við inni með 320 fermetra. Hér erum við með skrifstofuaðstöðu og mjög flotta og góða aðstöðu fyrir þennan hóp sem kemur hingað alla virka daga. Við förum í göngur, líkamsrækt og golf en auk þess erum við með handverksnámskeið þar sem við getum málað, skorið út, prjónað og litað. Þá erum við með hugræna þjálfun en hér er sálfræðingur starfandi sem stýrir því. Einnig er boðið upp á viðtöl við sálfræðing og hér eru stuðningshópar bæði fyrir aðstandendur og veika fólkið sjálft. Þau geta þá speglað sig með fólki sem er í sömu sporum og gert það í lokuðum hópi. Þetta er alger bylting í þjónustu við þennan hóp.“ 

Hafnfirðingar gráta af gleði

Á landsbyggðinni er ekki að finna þjónustu svipaða þeirri sem Seiglan býður upp á. Vilborg tekur fram að þjónustan hjá Seiglunni sé ekki bundin við fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu. 

„Til dæmis er einn einstaklingur frá Ísafirði sem kemur alltaf til okkar þegar viðkomandi kemur í bæinn og annar er af Suðurnesjunum.“

Húsnæðið sem um ræðir og er þekkt sem St. Jósefsspítali …
Húsnæðið sem um ræðir og er þekkt sem St. Jósefsspítali í Hafnafirði. mbl.is/Árni Sæberg

Skrifstofa samtakanna flutti í húsið hinn 1. nóvember. „Starfssemin í Seiglunni hófst um áramótin en vegna heimsfaraldursins var ekki blásið í lúðra fyrr en í vor. Hér hefur verið opið hús dag eftir dag og hátt í þúsund manns hafa komið hér við. Fólki þykir þetta gleðilegt og fólk er forvitið. Hafnfirðingar gráta af gleði þegar þeir sjá þetta hús fá hlutverk á ný. Húsið var í niðurníslu en kallast nú Lífsgæðasetrið. Sú starfssemi sem fær inni í húsinu þarf að flokkast undir það að auka lífsgæði fólks með einhverjum hætti,“ sagði Vilborg ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert