Fórnarlamb fjársvika rankaði við sér á fræðslufundi

Maðurinn var staddur á fræðslufundi Landsbankans.
Maðurinn var staddur á fræðslufundi Landsbankans. mbl.is/Hjörtur

Fundargestur áttaði sig á því að hann væri fórnarlamb bitcoin-svika, á miðjum fræðslufundi Landsbankans fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. 

Á fræðslufundinum fjallaði Brynja María Ólafsdóttir, í Regluvörslu Landsbankans, um algengar aðferðir til netsvika og hvernig mætti varast þær. 

Hún ræddi meðal annars um að svikarar óski oft eftir því að fá að taka yfir tölvur þeirra sem þeir ætli að svíkja, gjarnan með forritinu AnyDesk.

Áttaði einn fundargestur sig þá á því að hann hefði verið beittur svikum af þessu tagi. 

Ætlaði að kaupa bitcoin

Um er að ræða viðskiptavin bankans sem hafði fyrir stuttu séð auglýsingu frá erlendu fyrirtæki um fjárfestingar í bitcoin rafmynt á netinu. Smellti hann á hlekkinn og lýsti yfir áhuga á kaupum.

Í kjölfarið hafði maður samband og kynnti sig sem starfsmann þessa fyrirtækis. Óskaði hann eftir að fá að ganga frá kaupunum með því að yfirtaka tölvuna með forritinu AnyDesk.

Notaði hann þennan aðgang til að færa eitt þúsund evrur af greiðslukorti viðkomandi.

Staddur í miðri svikamyllu

Nokkrum dögum síðar var aftur haft samband frá fyrirtækinu þar sem farið var fram á að maðurinn tæki lán upp á eina milljón króna, og fjárfesti meira, enda væri gróðavonin mikil. 

Var þessu svo fylgt eftir með fleiri símtölum og viðskiptavininn fór að gruna að ekki væri allt með felldu.

Hann áttaði sig svo á því að hann væri staddur í miðri svikamyllu, á fyrrnefndum fræðslufundi, en peningurinn hafði ekki verið notaður í bitcoin fjárfestingar. 

Maðurinn lýsti yfir áhuga á því að kaupa bitcoin.
Maðurinn lýsti yfir áhuga á því að kaupa bitcoin. AFP

Forðuðu frekara tjóni

Maðurinn fékk aðstoð á fundinum við að loka netbankanum sínum og frysta greiðslukortið. Þá fékk hann leiðbeiningar um að láta fagaðila fara yfir tölvuna til þess að farga mögulegum vírusum. 

Í tilkynningu frá Landsbankanum kemur fram að peningurinn sem hafði nú þegar verið millifærður af reikningi hans, sé að öllum líkindum glataður.

Þó hafi tekist að koma í veg fyrir meira tjón, en svik sem þessi nefnast fjárfestasvik og dæmi eru um að einstaklingar hafi tapað tugum milljónum króna í slíkum svikum hér á landi. 

mbl.is