Ísland, Danmörk og Noregur ítreka stuðning við Svía og Finna

Jens Stoltenberg er framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg er framkvæmdastjóri NATO. AFP

Forsætisráðherrar Íslands, Danmerkur og Noregs hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu, þar sem þeir ítreka stuðning við þá ákvörðun Finna og Svía að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO), sem tilkynnt var um í gær og í dag.

Í yfirlýsingunni kemur fram að norrænu ríkin innan bandalagsins muni leggja sig fram um að tryggja að umsóknarferlið gangi hratt fyrir sig, enda standist Finnland og Svíþjóð nú þegar þau viðmið sem krafa er gerð um vegna aðildar að bandalaginu.

Forsætisráðherrar Íslands, Danmerkur og Noregs taka jafnframt fram að ríkin muni aðstoða Finnland og Svíþjóð með öllum ráðum, verði öryggi þeirra ógnað áður en aðild að Atlantshafsbandalaginu gengur í gildi, að því er segir í tilkynningu frá forsætis- og utanríkisráðuneytunum. 

Ríkisstjórnin kom saman í dag, þar sem eina mál fundarins var að fjalla um aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO. 

Undirbúningur hefjist án tafar

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Við styðjum eindregið ákvörðun Finnlands og Svíþjóðar að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Ákvörðun Finnlands og Svíþjóðar um að sækja um aðild að bandalaginu byggist á fullveldisrétti ríkjanna til að ákveða fyrirkomulag eigin öryggismála. Finnland og Svíþjóð eiga rétt á því að fylgja aðildarferli sínu eftir án nokkurra tilrauna til utanaðkomandi afskipta.

Finnland og Svíþjóð deila grundvallargildum Atlantshafsbandalagsins og munu efla sameiginlegar varnir og öryggi á Evró-Atlantshafssvæðinu.

Við munum eftir fremsta megni tryggja að aðildarferlið gangi hratt fyrir sig, þar sem Finnland og Svíþjóð standast nú þegar viðmið sem gerð er krafa um vegna aðildar að Atlantshafsbandalaginu. Liðsafli ríkjanna stenst staðla bandalagsins og unnt er að tryggja samhæfni með liðsafla bandalagsríkja. Við höfum þjálfað og æft saman í mörg ár. Við metum mikils veigamikið framlag Finnlands og Svíþjóðar til verkefna og aðgerða Atlantshafsbandalagsins.

Öryggi Finnlands og Svíþjóðar varðar okkur öll. Verði gerð aðför að öryggi Finnlands eða Svíþjóðar innan landsvæða þeirra, áður en til fullrar aðildar að bandalaginu kemur, munum við aðstoða þau með öllum tiltækum ráðum.

Við munum tafarlaust hefja undirbúning að framkvæmd þessara öryggisskuldbindinga. Við munum einnig þróa enn frekar varnarsamvinnu okkar við Finnland og Svíþjóð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert