Læknir í leyfi vegna rannsóknar

Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut.
Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Læknir sem grunaður er um að hafa hafið lífslokameðferðir á fólki að tilefnislausu þegar hann starfaði hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er farinn í leyfi af Landspítalanum, þar sem hann starfar nú, að eigin ósk. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Læknirinn er grunaður um að hafa valdið ótímabæru andláti alls níu sjúklinga og sætir hann lögreglurannsókn. Eftir að upp komist um málið fór læknirinn í endurmenntunar- og þjálfunarferli hjá Landspítala. Í desember sendi spítalinn frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði lækninn ekki starfa í nánd við sjúklinga heldur verið færður til í starfi og starfi nú við að yfirfara gagnasöfn til stuðnings við störf annarra lækna á legudeild A2 og COVID-göngudeild. 

„Hefur hann sinnt sínum verkefnum af kostgæfni og án athugasemda allt frá því hann hóf störf á Landspítala,“ segir í svari spítalans til fréttastofu RÚV.

Meðferð ábótavant

Málið má rekja til þess að árið 2019 hafi kona á áttræðisaldri verið lögð inn í hvíldarinnlögn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en hafi verið sett í lífslokameðferð og látist ellefu vikum síðar. Fjölskylda konunnar hafi kvartað undan meðferð læknisins og sagði hana ábótavant. Um hafi verið að ræða ranga lyfjagjöf, næringarskort, legusár og sýkingar sem ekki hafi verið meðhöndlaðar.

Hafi síðar vaknað grunur um fleiri slík atvik og er nú yfirstandandi rannsókn þar sem lækninum er gert að hafa sent 14 manns í óþarfa lífslokameðferð. Þar af hafi 9 manns látist.

Í frétt RÚV segir að í svari Landspítalans komi fram að læknirinn hafi í neyðartilvikum verið látin sinna sjúklingum vegna manneklu á spítalanum. Þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar spítalans um að hann annaðist ekki sjúklinga. Kom það upp eftir ábendinu sjúklings sem sagði lækninn hafa útskrifað sig af bráðalyflækningadeild.

Sakaður um að hafa orðið níu að bana

Í úrskurði Landsréttar kemur fram að málið lúti nú að því að læknirinn hafi látið 14 manns hefja ótímabæra lífslokameðferð þar sem níu hafi látist. Læknirinn hefur verið sviptur lækningaleyfi síðan rannsókn hófst en fékk leyfið aftur og hóf þá að starfa fyrir Landspítalann.

Læknirinn segir mikinn misskilnings gæta í málinu. Lengi hafi líknarmeðferð verið skráð sem lífslokameðferð hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.  

Í yfirlýsingu Landspítala frá því í desember kom fram að læknirinn muni ekki sinna sjúklingasamskiptum þar til skýrari mynd fengist af málinu. „Ástæðan fyrir þeirri ákvörðun var að hér eftir sem hingað til væri fullt traust borið til starfsemi Landspítala,“ segir í svari spítalans.  

Hafa nú verið skipaði óháðir matsmenn til að fara yfir dánarorsök þeirra látnu en matsmennirnir eru læknir með sérhæfingu í lífslokameðferðum og hjúkrunarfræðingur með réttindi í líknandi hjúkrun.

Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut
Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina