Popúlismi og nýtt fólk skýri stórsókn Framsóknar

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, er eitt af þessum …
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, er eitt af þessum nýju andlitum í flokknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil endurnýjun innan Framsóknarflokksins og popúlískar áherslur í stefnu flokksins skýra að miklu leyti stórsókn flokksins á landsvísu, og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, í afstöðnum sveitarstjórnarkosningum, að mati Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði.

Hann bendir á að Framsóknarflokkurinn hafi gengið í gengum töluverða endurnýjun í kjölfar erfiðleikatímabils sem varði frá árinu 2007 til 2016. Á síðustu misserum hafi flokkurinn fengið nýtt fólk til liðs við sig og það veki athygli að starf ungs framsóknarfólks sé mjög kröftugt.

„Þeir fara í gegnum þessa endurnýjun og fá allskonar fólk til liðs við sig sem hefur ekki verið þekkt hingað til fyrir að vera Framsóknarfólk. Þeir eru með öfluga ungliðahreyfingu og þeim tekst að endurnýja sig í mörgum sveitarfélögum sem aðrir flokkar eru oft á tíðum ekki að gera,“ segir Baldur.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, telur nokkra þætti skýra gott …
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, telur nokkra þætti skýra gott gengi Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn

Meirihlutaflokkunum mistókst að endurnýja sig

Meirihlutaflokkunum í Reykjavík hafi til að mynda algjörlega mistekist að endurnýja sig fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.

„Við sjáum bara að allir þeir borgarfulltrúar sem náðu kjöri frá þeim voru í síðustu borgarstjórn. Þeir sem voru nýir hjá flokkunum voru aftarlega á listunum. Ég held að það hafi verið ein af grundvallarmistökum meirihlutaflokkanna í Reykjavík frá síðasta kjörtímabili að endurnýja sig ekki meira.“

Hvað popúlískar áherslur flokksins varðar segir Baldur flokkinn finna þau mál í hverju sveitarfélagi fyrir sig sem séu mjög umdeild og lofi að taka á þeim málum.

„Flokkurinn kemur ekki eins og hefðbundnir hægri og vinstri flokkar með ákveðna lausn á málunum, heldur lítur á málin sem ágreiningur er um og lofar að bæta þau eins og honum finnst vera samhljómur um að það eigi að bæta þau.

Þetta er ákveðinn popúlismi. Sumir myndu segja að það væri frábært að stjórnmálaflokkar gerðu þetta. Aðrir myndu segja að þetta væri ákveðið lýðskrum, en það fer eftir því hvernig fólk lítur á þetta.“

Magnea Gná Jó­hanns­dótt­ir, borgarfulltrúi Fram­sókn­ar­flokks­ins, er yngst í hópi borgarfulltrúa.
Magnea Gná Jó­hanns­dótt­ir, borgarfulltrúi Fram­sókn­ar­flokks­ins, er yngst í hópi borgarfulltrúa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Týpísk aðferð popúlískra flokka 

Hann segir flokkinn að ákveðnu leyti nota týpíska aðferð popúlískra flokka í Evrópu og kenna valdaelítunni í Reykjavík um það sem hefur misfarist.

„Við sáum þetta í aðdraganda kosninganna. Það er valdaelítan í Reykjavík sem hugsar um þrönga hagsmuni þeirra sem búa í 101 Reykjavík. Valdaelítunni í miðborg Reykjavíkur er stillt upp sem andstöðu við vilja meirihluta almenning í Reykjavík og á landinu öllu,“ segir Baldur.

„Þetta er týpískur leikur sem popúlista flokkar í Evrópu beita. Framsóknarflokkurinn beitti þessu í aðdraganda sveitarstjórnanna. Bæði formaður flokksins sem og oddviti flokksins í Reykjavík. Þetta hefur sagan sýnt að virkar,“ bætir hann við.

Þá segir Baldur það hafa eitthvað að segja að það virðist vera ákall í samfélaginu eftir öfgalausum stjórnmálum. Fráhvarfi frá vinstri- og hægristefnu sem Frammsóknarflokkurinn nái að nýta sér með því að boða miðjustefnu og reyna að höfða í allar áttir.

Baldur segir það hafa verið grundvallarmistök hjá fyrrverandi meirihlutaflokkum að …
Baldur segir það hafa verið grundvallarmistök hjá fyrrverandi meirihlutaflokkum að endurnýja sig ekki meira. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn betri í að leika tveimur skjöldum

Hæfileikar Framsóknarflokksins til að leika tveimur skjöldum koma sér líka vel, að mati Baldurs.

„Það er enginn betri í ríkisstjórn en Framsóknarflokkurinn að leika tveimur skjöldum. Framsóknarflokkurinn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi minnir mig oft á snilldartaktík Steingríms heitins Hermannssonar. Jafnvel þegar hann var forsætisráðherra þá velti maður fyrir sér hvort hann væri í stjórn eða stjórnarandstöðu. Framsóknarflokkurinn hefur leikið þann leik síðustu misseri að bæði styðja stjórnarstefnuna og að vera á móti henni.“

Baldur tiltekur þrjú dæmi; bankasöluna, skattlagningu á gróða bankanna og skattlagningu á sjávarútveginn.

„Framsóknarflokkurinn talar fyrir því að skattleggja gróða bankanna og að skattleggja sjávarútveginn í meira mæli, en stjórnarstefnan er annars konar. En þessi mál höfða til kjósenda. Þessi leikur flokksins að leika tveimur skjöldum hann virðist vera að ganga upp.“

Í greiningu Baldurs á góðum árangri Framsóknarflokksins segir hann það einnig hafa áhrif að Miðflokkurinn sé algjörlega búinn að missa flugið og gera megi ráð fyrir að stór hópur framsóknarfólks sé „að fara heim.“

Framsóknarflokkurinn er í ágætis samningsstöðu þegar kemur að viðræðum um …
Framsóknarflokkurinn er í ágætis samningsstöðu þegar kemur að viðræðum um myndun nýs meirihluta. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is