Þrengir stöðu Framsóknarflokksins allverulega

Einar Þorsteinsson, á ekki jafn auðvelt tillkall til borgarstjórastólsins og …
Einar Þorsteinsson, á ekki jafn auðvelt tillkall til borgarstjórastólsins og áður, að mati Baldurs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirlýsing um að Samfylking, Píratar og Viðreisn muni fylgjast að í viðræðum um myndun nýs meirihluta, þrengir stöðu Framsóknarflokksins allverulega. Að sama skapi styrkir yfirlýsingin stöðu Dags B. Eggertssonar í kröfu um borgarstjórastólinn.

Það, að Vinstri græn ætli sér ekki í meirihlutastarf, auðveldar Framsóknarflokknum að ganga inn í meirihlutastarf með hinum fyrrverandi meirihlutaflokkunum.

Þetta segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, í samtali við mbl.is.

Hann segir yfirlýsingu flokkanna, um að fylgjast að, kristalla það hvað þeir hafi unnið náið saman á kjörtímabilinu og hvað þeir eigi mikið sameiginlegt málefnalega.

„Eftir að komið hefur í ljós að þessir þrír flokkar ætla að standa saman að meirihlutaviðræðunum, þá er ekki hægt að sjá fyrir sér í augnablikinu hvernig Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur ætla saman að mynda meirihluta í borginni,“ segir Baldur. Þá sé Sjálfstæðisflokkurinn í mjög erfiðri stöðu.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, telur líklegast að Samfylking, Píratar …
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, telur líklegast að Samfylking, Píratar og Viðreisn reyni að fá Framsókn til samstarfs. mbl.is/Kristinn

Líklegast að flokkarnir fái Framsókn til liðs við sig 

„Að óbreyttu útilokar þetta að þessir tveir flokkar geti myndað saman meirihluta í borginni. Að sama skapi styrkir þetta verulega stöðu Dags B. Eggertssonar og þá kröfu Samfylkingarinnar, að hann verði áfram borgarstjóri. Einar er ekki lengur í því lykilhlutverki sem hann var í, áður en þessi yfirlýsing kom fram. Hann getur ekki krafist borgarstjórastólsins eins auðveldlega því hann getur ekki vísað til þess að hann geti myndað annan meirihluta,“ útskýrir Baldur.

Eftir að mbl.is ræddi við Baldur, sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, hins vegar í samtali við mbl.is að hún útilokaði ekki samstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn. Mögulega breytir það stöðunni eitthvað. Ætla má þó að meirihlutaflokkarnir fyrrverandi láti þó reyna á samstöðuna sín á milli í fyrstu viðræðum.

Að mati Baldurs er líklegast að flokkarnir þrír reyni að fá Framsóknarflokkinn til liðs við sig.

„Það er líklegasta niðurstaðan í stöðunni, vegna þess að það er ekki hægt að sjá fyrir sér að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur nái að mynda meirihluta. Það er ekki margt annað í stöðunni.“

Baldur bendir á að flokkarnir þrír gætu myndað meirihluta með Sósíalistaflokknum, sem fékk tvo fulltrúa kjörna, en Sósíalistar hafi hins vegar útilokað samstarf við Viðreisn og falli það því um sjálft sig.

Þórdís Lóa segist ekki útloka samstarf til hægri með Sjálfstæðisflokki …
Þórdís Lóa segist ekki útloka samstarf til hægri með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gætu fallið frá útilokun ef illa gengur

Ef flokkarnir þrír ná ekki saman með Framsókn, sé erfitt að sjá fyrir sér að það takist að mynda meirihluta, nema flokkarnir falli frá þeirri stefnu sinni að útiloka aðra, að mati Baldurs.

„Þá fer maður að velta fyrir sér hversu lengi ætla Sósíalistar að útiloka Viðreisn og hversu lengi ætlar VG að halda í það að fara ekki í meirihluta? Hversu lengi mun þetta samflot þessara þriggja flokka halda?

Ef meirihlutaviðræður í borginni ganga mjög illa, þá gæti orðið þrýstingur á þessa flokka, jafnvel í þeirra eigin herbúðum að hætta þessum útilokunaraðferðum og reyna frekar að ná saman um myndun meirihluta,“ segir Baldur.

Hann bendir á að Framsókn, Samfylking og Píratar geti myndað meirihluta og sleppt Viðreisn. Þó sé ólíklegt að sú hugmynd verði viðruð fyrr en búið verði að láta reyna á að hafa Viðreisn með.

„Það hefur stundum verið grunnt á því góða hjá Framsóknarflokknum og Viðreisn í landsmálunum,“ segir Baldur.

Oddvitar flokkanna eru byrjaðir að ræða saman um myndun nýs …
Oddvitar flokkanna eru byrjaðir að ræða saman um myndun nýs meirihluta, sem gæti orðið strembið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Auðveldi Framsókn að fara inn í meirihlutann

Hvað varðar þá afstöðu Vinstri grænna, að vilja ekki taka þátt í meirihlutasamstarfi á komandi kjörtímabili, segir hann mjög sérstakt að lýsa því og efast um það hafi verið vilji kjósenda flokksins.

„Það er mjög skiljanlegt að flokkurinn vilji endurnýja sig og skoða stöðu sína í Reykjavík,  vegna þess hve illa honum gengur. Ég efast þó um að kjósendur, sem greiddu honum atkvæði sitt, hafi viljað að um leið og lokatölur birtust, að flokkurinn lýsti því yfir að hann ætlaði ekki að reyna að hafa áhrif á borgarmálin.“

Baldur bendir á að um svipaða stefnu sé að ræða og hjá Sósíalistum í síðustu kosningum. „Kröfurnar sem þeir gerðu voru svo róttækar og miklar, að það gat ekki nokkur annar flokkur komist nálægt því að bjóða þeim eitthvað í meirihlutasamstarfi. Það var augljóst fyrir fjórum árum að sósíalistar ætluðu sér ekkert í meirihlutastarf.“

Líkt og áður sagði, telur hann þessa afstöðu Vinstri grænna hins vegar auðvelda Framsóknarflokki að ganga til samstarfs við Samfylkingu, Pírata og Viðreisn.

„Hann er þá ekki að ganga inn í meirihlutann eins og hann var.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert