Eltir börn í Úlfarsárdal

Dalskóli í Úlfarsárdal.
Dalskóli í Úlfarsárdal.

Í Úlfarsárdal í Reykjavík hefur komið upp mál þar sem maður eltir börn á leið heim úr skólanum, tekur myndir af þeim og hefur berað sig á skólalóðinni. Mikil umræða skapaðist á Facebook-hóp íbúa í Úlfarsárdal í Reykjavík um málið. Þar deila margir foreldrar sögum um manninn.

Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar staðfestir við mbl.is að mál mannsins sé komið á borð borgarinnar. Hún sagði að velferðarsviðið taki öllum ábendingum alvarlega og beini fólki á að hafa samband við lögreglu. 

Móðir í hverfinu segir í samtali við mbl.is að hún hafi fengið sendar ótal sögur frá foreldrum og hafi sjálf haft samband við bæði lögregluna og félagsaðstoð Reykjavíkurborgar, en maðurinn býr í Félagsbústöðum Reykjavíkurborgar í hverfinu. Vilja foreldrar að hann verði fjarlægður úr hverfinu. Sagt er frá því að maðurinn bíði fyrir utan grunnskóla í hverfinu eftir börnum, taki myndir af þeim og elti þau heim.

Hún segir að í skólanum séu börn sem hafi lent í því að þurfa að hlaupa heim og fari krókaleiðir þegar þau gangi heim úr skólanum. Drengur í skólanum hafi ekki farið út úr húsi frá því í lok mars vegna hræðslu við manninn þar sem maðurinn elti drenginn langa leið þegar drengurinn gekk heim úr skólanum. Í gær hafi svo maðurinn hlaupið á eftir 9 ára stelpu þegar hún var á leið heim til sín, hún hafi náð að komast innfyrir dyrnar heima hjá sér áður en maðurinn náði henni og hafi grátið af ótta.  

Beðið eftir saknæmu athæfi

Svörin sem móðirin fékk frá Reykjavíkurborg voru: „Það eru börn í öðrum hverfum líka, við getum ekki bara sent hann í annað hverfi til annarra barna.“ Segir móðirin að hún óski þess að maðurinn verði fjarlægður úr hverfinu og færður á stað þar sem færri börn eru eða fundið verði fyrir hann viðeigandi úrræði.

Svör lögreglunar voru á þann veg að ekki sé neitt hægt að gera fyrr en eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Þar sem maðurinn hafi ekki brotið af sér enn, heldur elti einungis börn og taki myndir af þeim, þurfi að bíða eftir því að maðurinn gerist sekur um refsiverðan verknað, svo lögreglan bíður nú eftir að maðurinn brjóti á barni.  

Beraði sig á skólalóðinni

Önnur móðir skrifar í Facebook-hópnum að hún telji að maðurinn sé búinn að reikna út hvenær skólastarf hefjist og hvenær því ljúki og sitji því á bekk fyrir utan innganginn að skólanum og taki myndir af börnunum þegar þau eiga leið hjá. Hann eyði deginum svo í að ganga í kringum skólann og taka strætó í hverfinu.

Þriðja móðirin segir i frá því að hún hafi rekist á manninn á skólalóðinni með buxurnar niðrum sig þegar hún sótti börnin sín í skólann. Sást í kynfæri mannsins þar sem hann var staddur á skólalóðinni og bað hún manninn um að hysja upp um sig buxurnar.

Enn eitt foreldri stingur upp á því að koma á fót foreldragöngu, þar sem foreldrarnir skipa á milli sín að ganga um hverfið í litlum hópum á kvöldin og tryggi öryggi barna í hverfinu.   

Félagsþjónusta Reykjavíkurborgar óskar nú eftir sögum foreldra og barna af manninum.

Lögregla vildi ekki staðfesta hvort málið væri á borði lögreglu þegar mbl.is hafði samband og spurði um málið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert