Flúði berfætt með svefnpoka undan ofbeldinu

Dómurinn féll í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómurinn féll í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Helga Kristín Auðunsdóttir, lektor við Háskólann á Bifröst og fyrrverandi sambýliskona Gísla Haukssonar, fyrrverandi forstjóra og stofnanda GAMMA, sem var í dag dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að beita hana ofbeldi á heimili þeirra, segist upplifa ólýsanlegan létti yfir því að málinu sé lokið. Það hafi verið henni mikilvægt að fá viðurkenningu á því að hún hafi verið beitt ofbeldi.

Helga Kristín birti færslu á Facebook í dag þar sem hún greindi frá ferlinu frá því ofbeldið átti sér stað og þar til dómur féll í málinu. Hún gaf mbl.is leyfi til að skrifa um það sem fram kemur í færslunni.

Fylgdi öllum ráðunum frá Kvennaathvarfinu

„Það var í maí fyrir tveimur árum sem ráðist var á mig á heimili mínu og ég flúði berfætt með svefnpoka sem ég greip með mér. Ég hefði aldrei trúað því að ég myndi upplifa svona mikla ógn og svona ofbeldi inni á heimili mínu og af hálfu manneskju sem ég treysti. En í dag veit ég að þolandi hefur enga stjórn á ákvörðun annarra um að beita ofbeldi,“ skrifar Helga Kristín.

Hún segist hafa hringt í Kvennaathvarfið sömu nótt og beðið um lista yfir þau atriði sem hún þyrfti að fara eftir til að tryggja að hún færi aldrei aftur inn á heimilið. Hún hafi farið í einu öllu eftir þeim ráðum sem henni voru gefin og það hafi gefið henni mikilvægar bjargir vikurnar á eftir.

Þá hafi henni verið ráðlagt að fara á bráðamóttökuna því áverkarnir gætu verið lífshættulegir, en í ákæru kom fram að Gísli hefði ítrekað tekið hana kverkataki, skellt utan í vegg og þrengt að hálsi hennar svo hún átti erfitt með andardrátt og féll í gólfið.

Á bráðamóttökunni fékk hún svo staðfestingu á ofbeldinu.

Helga Kristín segist upplifa ólýsanlega létti yfir því að málinu …
Helga Kristín segist upplifa ólýsanlega létti yfir því að málinu sé lokið. Hér er hún ásamt lögmanni sínum, Arnari Þór Stefánssyni.

Að hann neitaði gerði líðanina verri

„Það var mér ótrúlega mikilvægt að fá viðurkenningu á því sem gerðist og viðurkenningu á ég var beitt ofbeldi. Líkamlegt ofbeldi skilur eftir merki og hefur áhrif á líðan í langan tíma. Það er því gaslýsing á hæsta stigi þegar gerandi ítrekað neitar sök. Í tvö heil ár. Að hann neitaði sök í allan þennan tíma gerði líðanina á þessum tíma margfalt verri,“ skrifar Helga Kristín, en það var ekki fyrr en við meðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku að Gísli viðurkenndi að hafa beitt hana ofbeldi.

Hún segir kæruferlið vera það erfiðasta sem hún hafi upplifað og á margan hátt hafi það gert upplifunina af ofbeldinu verri.

„Ákvörðunin um að kæra kom til mín einn dag þegar mér fannst ég geta loks dregið andann ofan í lungu og brosað með augunum. Haustið 2020 hringdi ég í gamlan kunningja, Arnar Þór Stefánsson, og bað hann um aðstoð við að kæra þetta ofbeldi til lögreglunnar.“

Hefði gjarnan viljað nýta orkuna í eitthvað annað 

Helga Kristín segist þakklát þeim konum sem börðust fyrir því á undan henni að skila skömminni. Það sé þeim að þakka að í dag finni hún ekki fyrir skömm yfir því að ráðist hafi verið á hana

„En mig langar ekki að dvelja í því að þetta var lífsreynsla sem ég bað ekki um og óska engum. Orkuna sem fór í að brotna ekki hefði ég svo gjarnan viljað nýta í eitthvað annað,“ skrifar Helga Kristín.

„Í dag lýkur þessu ferli. Í dag var gerandinn sakfelldur eftir að hafa loksins játað brotið. Dómstóll hefur viðurkennt ofbeldið sem átti sér stað bakvið luktar dyr í maí 2020. Einu og hálfu ári frá kæru. Tveimur árum frá árás. Léttirinn við að þessu er lokið er ólýsanlegur. Það er bjart framundan enda á ég góða að.“

mbl.is