Jafnvel nokkrir dropar

Frá Reykjavík.
Frá Reykjavík. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Í dag verður heldur skýjaðara en í gær. Rigning suðaustantil og jafnvel gætu komið nokkrir dropar um landið suðvestanvert eftir hádegi og fram á kvöld. Það verður að öllum líkindum þess valdandi að við munum ekki sjá sömu hitatölur og við fengum í gær,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands í morgun. 

Þar segir einnig að engu að síður muni hitastigið á allnokkrum stöðvum fara yfir 15 stigin „og um miðjan maí þykir það bara ansi gott.“

„Á morgun, miðvikudag, er svo enn meiri bleyta á leiðinni til okkar en suðvestantil á landinu verður þurrt fram yfir hádegi og horfur eru á að úrkoman þar verði minni en víðast hvar annars staðar og líklega á skúraformi. Það veldur því að hæstu hitatölurnar verða líklega kringum 13 til 15 gráður, en fremur svalt verður fyrir norðan og austan,“ segir ennfremur. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á miðvikudag:
Norðaustlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og rigning víða um land. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast suðvestanlands.

Á fimmtudag:
Norðaustan 8-13 m/s og rigning norðvestantil en annars suðaustan 3-10 og víða skúrir. Hiti yfirleitt 7 til 14 stig.

Á föstudag:
Fremur hæg austlæg átt og rigning með köflum sunnantil en stöku skúrir fyrir norðan. Hiti 6 til 15 stig, svalast á Vestfjörðum.

Á laugardag:
Norðlæg eða breytileg átt og víða dálítil væta en þurrt að mestu sunnan- og vestanlands. Hlýtt á sunnanverðu landinu, en svalt fyrir norðan.

Á sunnudag:
Norðan kaldi. Rigning fyrir norðan og fremur kalt en þurrt, víða bjart. Milt verður syðra að deginum.

Á mánudag:
Útlit fyrir suðvestanátt með dálítilli vætu sunnan- og vestantil, en annars þurrt. Hiti 6 til 12 stig.

Veðurvefur mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert