Kæran til athugunar hjá forsætisnefnd

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kæra gagn­vart Sig­urði Inga Jó­hanns­syni innviðaráðherra er til athugunar hjá for­sæt­is­nefnd Alþing­is. Enn hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvort málið sé tækt til efnislegrar meðferðar.

„Í apríl barst erindi frá einstaklingi úti í bæ sem taldi að framganga Sigurðar Inga hefði farið í bága við siðareglur alþingismanna. Forsætisnefnd hefur tekið málið til athugunar en hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort málið sé tækt til efnislegrar meðferðar í samræmi við málsmeðferðarreglur þingsins. Sérstakar málsmeðferðarreglur gilda um meint brot á siðareglunum og á vettvangi forsætisnefndar er nú verið að fara yfir þetta.

„Við höfum einnig verið að láta skoða þetta af hálfu skrifstofu Alþingis af því að þetta mál er að ýmsu leyti svolítið frábrugðið öðrum málum sem við höfum fengið til úrlausnar. Þau mál sem hafa borist, vegna meintra brota á siðareglum á síðustu árum, hafa auðvitað verið einstök hvert á sinn hátt. Í þessu máli þurfum við hins vegar að taka afstöðu til álitamála sem við höfum ekki þurft að gera áður,“ sagði forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, þegar mbl.is hafði samband við hann í dag. Birgir er jafnframt formaður forsætisnefndar. 

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kær­an snýr að um­mæl­um Sig­urðar Inga um Vig­dísi Häsler, framkvæmdastjóra Bænda­sam­tak­anna, sem hann lét falla í kvöldverðarboði á Búnaðarþingi.

Mikil fjölmiðlaumfjöllun var um málið í apríl. Hvorki Sigurður né Vigdís hafa sagt frá því hvaða orð voru látin falla en Vigdís sagði þau hafa verið afar særandi. Sigurður bað Vigdísi í kjölfarið afsökunar á ummælunum. 

mbl.is