Keyrt á álftina

Hin ástsæla álft Svandís. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Hin ástsæla álft Svandís. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í gær bárust fréttir af því að álft hefði verið skotin við bæinn Kross í Fellum í Héraði. Taldi lögreglan líklegt að fuglinn hafi verið skotinn í höfuðið með 22. kalibera riffli. Það hefur nú verið leiðrétt samkvæmt frétt Austurfrétta.

Það vakti óhug margra, fyrst þegar talið var að álftin hefði verið skotin með riffli í höfuðið, þar sem álíka mál hafði komið upp á svipuðum slóðum árið 2016 þegar álftapar fannst látið við Breiðafjarðarveg í Hjalastaðarþinghá. Höfðu þá tveir fuglar, karl og kvenfugl verið skotin, í búk og endaþarm og létust kvalafullum dauðdaga.

Í dag staðfesti lögreglan að að ökumaður hafi gefið sig fram þegar hann sá fréttir af málinu þar sem hann hafi ekið á álft í gærmorgun. Héraðsdýralæknir Egilsstaða hafi svo staðfest við lögreglu að áverkar á fuglinum gæfu til kynna að um árekstur væri að ræða.

Álftin er friðaður fugl á Íslandi og hefur verið það frá árinu 1913. Bóndi á Krossi segir álftir oft hafast við á svæðinu og þetta tiltekna álftapar hafi komið svo árum skipti og varið sumrinu á vatninu við bæinn þar sem fuglinn fannst.

Í tilkynningu lögreglunnar kom fram að ökumanni hefði láðst að tilkynna lögreglu um áreksturinn en áverkarnir á fuglinum líktust skotsári þar sem álftin fékk gat á höfuðið. 

Í tilkynningu frá lögreglu eru áréttuð tilmæli til ökumanna um að fara varlega þar sem dýr safnast gjarnan við vegi á þessum árstíma svo sem hreindýr, sauðfé og fugla.

mbl.is