Skildu meira eftir sig en fólk kærir sig um

Bílinn á lóð fyrirtækisins Fagradalsbleikju í morgun.
Bílinn á lóð fyrirtækisins Fagradalsbleikju í morgun. mbl.is/Jónas Erlendsson

Í þjóðmálaumræðunni má gjarnan heyra að verðmæti séu fólgin í því sem erlendir ferðamenn skilja eftir sig hérlendis.

Heppilegast er sennilega að túlka hvert atriði fyrir sig í þeim efnum en miður geðsleg sjón blasti við Jónasi Erlendssyni þegar hann ásamt eiginkonunni fór í morgun að huga að eldinu í Fagradalsbleikju sem þau eru með í Mýrdalshreppi. 

Mbl.is varar klígjugjarna lesendur við myndinni sem fylgir fréttinni. 

„Þegar við komum í morgun til að gefa bleikjunni þá sáum við Camper-bíl á planinu hjá fiskeldinu. Við áttuðum okkur á því að ferðamennirnir höfðu gist þarna. Konan mín skammaði þá fyrir að vera þarna og sagði þeim að koma sér í burtu. Þau þóttust reyndar ekkert skilja. Þegar þau voru farin röltum við í kringum húsið og sáum þá mannaskít upp við húsvegginn eftir þá. Maður hrekkur alltaf við þegar maður sér svona og hvað þá undir húsvegg,“ sagði Jónas þegar mbl.is truflaði hann við sauðburð.  

„Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist hjá okkur. Fyrir nokkrum árum mátti sjá mannaskít hvað eftir annað við vegamótin hjá okkur. Þá lét ég útbúa skilti og setti það upp en á því stóð No camping. Við vildum því ekki fá svona bíla heim til okkar. Það væri svo sem allt í lagi ef fólk myndi bara gista en það er allt annað mál þegar þau skilja svona eftir sig,“ sagði Jónas sem býr í Fagradal. 

Málið tók óvænta stefnu

Eftir atvikið í morgun hafði Jónas samband við bílaleiguna sem um ræðir. „Ég sendi bílaleigunni tölvupóst. Sagði þeim hvað hafði gerst og að þetta hafi verið bíll frá þeim. Ég bað bílaleiguna um að hafa samband við þá sem leigðu bílinn með þeim skilaboðum að þeir mættu gjarnan hreinsa eftir sig skítinn. Þegar ég fór aftur að huga að eldinu í dag þá sá ég að ferðamennirnir höfðu komið og hreinsað upp eftir sig skítinn. Þeir gerðu það þó,“ sagði Jónas og var ánægður með að viðkomandi einstaklingar hafi alla vega brugðist við. 

Þetta skildu næturgestirnir eftir sig...
Þetta skildu næturgestirnir eftir sig... mbl.is/Jónas Erlendsson
.....en hreinsuðu upp eftir sig eftir að hafa fengið til …
.....en hreinsuðu upp eftir sig eftir að hafa fengið til þess hvatningu. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Mér skilst að þetta sé útbreitt vandamál út um allt land enda er ég ekki viss um að  bílaleigurnar séu duglegar að benda viðskiptavinum á að þeir geti ekki gert þarfir sínar hvar sem er. Auk þess finnst mér að þessir bílar eigi heima á tjaldsvæðunum. Þar er öll aðstaða,“ sagði Jónas Erlendsson. 

Skiltið sem Jónas sá ástæðu til að setja upp á …
Skiltið sem Jónas sá ástæðu til að setja upp á sínum tíma. mbl.is/Jónas Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert