Á fleygiferð inn í framtíðina

Fyrr á árinu kom út fræðiritið Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, sem hugsað er sem kennslurit. Í bókinni, sem er í tveimur bindum, rúmar 800 blaðsíður, er íslensk bókmenntasaga frá upphafi til dagsins í dag rakin í stuttum og hnitmiðuðum köflum, til að vekja áhuga ungs fólks á íslenskum bókmenntum, að sögn eins höfundanna, Ástu Kristínar Benediktsdóttur.

Höfundar bókarinnar Ástu Kristínar eru Ármann Jakobsson, Aðalheiður Guðmundsdóttir, Margrét Eggertsdóttir, Sveinn Yngvi Egilsson og Jón Yngvi Jóhannsson

Yfirskrift kafla Ástu Kristínar í bókinni er „Á fleygiferð inn í framtíðina“ og fjallar um seinni hluta tuttugustu aldar fram á þá tuttugustu og fyrstu, en kaflanum lýkur um 2017. Hún segist hafa verið skikkuð í að skrifa um þetta tímaskeið, enda sé það vanþakklátasta verkefnið: „Það eru allir reiðir við þá sem skrifa sögu samtímans og nú situr örugglega þarna úti fullt af vonsviknum og fúlum rithöfundum af því þeir eru ekki í bókinni og þeir geta þá verið reiðir við mig. Þetta er þo alls engin byrði að bera, mér finnst þetta ofboðslega skemmtilegt.“

Síðustu tveir kaflarnir í hluta Ástu Kristínar fjalla um bókmenntasögu 21. aldar og hún segir að það sé flókið að skrifa slíka sögu, því höfundurinn sé alltaf að velja eitthvað nánast af handahófi; við getum ekki vitað í dag hvað muni sitja eftir þegar fram líða stundir. Hún nefnir sem dæmi bókmenntasögu Stefáns Einarssonar, Íslensk bókmenntasaga 874–1960, sem kom út 1961. „Ég fletti af gamni hans samtímakafla og skoðaði hvaða höfunda hann valdi og hverjir af þeim eru ennþá hluti af bókmenntasögunni. Ég held að það sé svona um það bil helmingurinn sem séu höfundar sem að við erum enn að læra um í dag, en hinir eru horfnir, týndir. Ég giska á að það verði það sama með mig, að helmingurinn af því sem ég skrifa un verði bara úrelt.“

mbl.is