Beit í lögregluþjóna og notaði IKEA-hníf til stungu

Maðurinn beit tvo lögreglumenn og hrækti á þrjá aðra.
Maðurinn beit tvo lögreglumenn og hrækti á þrjá aðra. mbl.is/Hari

Karlmaður var dæmdur í 18 mánaða fangelsi 4. maí í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir stunguárás með IKEA-borðhníf. Var refsingin skilorðsbundin til tveggja ára. Maðurinn var einnig dæmdur fyrir líkamsárás í söluturni, fíkniefnabrot og fyrir að bíta tvo lögreglumenn.

Fórnarlambið var einnig ákært en málið má rekja til þess að mánudagskvöldið 26. október 2020 voru mennirnir, sem eru vinir til margra ára, að drekka áfengi. Þeir munu síðan hafa farið í heimahús hjá vini annars þeirra, þar sem drykkjan hélt áfram.

Þar lamdi annar þeirra hinn í höfuðið með vodkaflösku. Sá sem fékk flöskuna í höfuðið brást þá við með því að taka upp hníf og stinga hinn í bakið. Var stungan fimm sentimetra djúp og þriggja sentimetra löng. Voru mennirnir ákærðir fyrir hættulega líkamsárás gegn hvor öðrum.

Stakk vin sinn eftir högg með vodka flösku

Í dómnum er málið rakið í heild. Sagði ákærði mennina tvo hafa hist og drukkið áfengi saman, þeir hafi ekki munað hvort þeir hafi neytt fíkniefna. Þeir hafi haldið heim til félaga annars þeirra og haldið drykkjunni áfram. Þar hafi komið til ágreinings og fórnarlambið þrisvar sinnum ráðist á ákærða.

Brotaþoli sé bæði stærri og sterkari en sá ákærði og brotaþoli hafi áður ráðist á ákærða og hótað sér með skrúfjárni. Ákærði segist hafa farið í göngutúr með húseigandanum og fengið flöskuna í andlitið þegar þeir komu til baka, en hann viti ekki hvers vegna.  

Eftir höggið með flöskunni hafi hann hlotið hnefahögg frá brotaþola. Hann hafi síðan legið á bakinu með brotaþola ofan á sér þar sem hann hafi teygt sig í nærliggjandi hlut sem hafi reynst vera IKEA-hnífur. Hann bar fyrir sig fyrir dómi að verknaðurinn hefði verið sjálfsvörn.

Hann hafði hlotið 1,5 sentimetra skurð vinstra megin á höku, eins sentimetra skurð á vinstri kinn og fjögurra millimetra skurð á enni. Húseigandinn sem er vitni í málinu tók þann ákærða hálstaki og „svæfði hann“ til að koma í veg fyrir frekari átök þar sem brotaþoli var hræddur og hrópaði á hjálp.

Dómurinn féllst ekki á þá skýringu að verknaðurinn væri sjálfsvörn þar sem ströngum skilyrðum þarf að vera fullnægt svo að um sjálfsvörn eða neyðarvörn sé að ræða. Taldi dómurinn þeim skilyrðum ekki fullnægt þar sem húseigandinn sem var vitni að öllu saman segir ákærða hafa sótt hnífinn inn í eldhús í þeim tilgangi að svara fyrir sig.

IKEA framleiddi hnífinn.
IKEA framleiddi hnífinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tók leigubíl heim með stungusár

Eftir árásina hafi brotaþoli hlaupið á brott. Hann hafi tekið leigubíl og farið til móður sinnar. Eigandi heimilisins hafi kallað á sjúkraliða sem hafi hlúð að ákærða. Þar kom lögregla að, þar sem þeir sitja fyrir utan húsið. Sá ákærði hafi verið fluttur á slysadeild vegna áverka á höfði, eftir vodkaflösku og hnefahögg. Seinna um kvöldið hafi móðir brotaþola hringt í neyðarlínu þar sem hún tilkynnti að sonur sinn væri með djúpan skurð á baki og var þá farið með hann á slysadeild.

Erfitt að róa ákærða

Þar mundi hann ekki eftir því að hafa verið stunginn eða hver hefði verið að verki. Í skýrslu læknis kemur fram að hann hafi einnig hlúð að ákærða en sá hafi verið með áverka á andliti eftir vodkaflösku. Þegar gera átti að sárum hans hafi ákærði spennst upp og ætlað að rjúka út. Erfitt hafi verið að róa hann niður og var hann færður á brott af lögreglu.

Ákæruvaldið krafðist þess að mennirnir yrðu dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá var þess krafist að IKEA-borðhnífurinn yrði gerður upptækur. Brotaþoli höfðaði einnig einkamál gegn ákærða þar sem hann krafðist tveggja milljóna króna í miskabætur. Þá yrði honum gert að greiða málskostnað fyrri mannsins að fullu.

Féllst dómari á að brotaþoli ætti rétt til bóta en lækkaði upphæðina niður í 600.000 kr. auk vaxta. Ákærði var eins dæmdur til að greiða lögmannskostnað og málskostnað.

Dæmdur fyrir fleiri mál

Sá ákærði var einnig dæmdur fyrir fleiri brot en þann 7. júlí hafði hann veist að tveimur manneskjum í söluturni í Reykjavík þar sem þær sátu við borð. Tók hann aðra þeirra hálstaki með annarri hendi og sló hina í andlitið.

Lögregla mun þá hafa handtekið manninn þar sem hann hrækti blóði í andlit lögreglumanns og og beit annan í lögreglubifreiðinni með þeim afleiðingum að lögreglumaður þurfti að undirgangast smitrannsókn. Seinna um daginn beit hann svo þriðja lögreglumanninn í sköflunginn í annarri lögreglubifreið.  

Maðurinn var í kjölfarið færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem á honum fundust 1,39 grömm af amfetamíni og 1,36 grömm af marijúana.

Rúmum þremur mánuðum seinna hrækti hann aftur í andlitið á lögreglumanni, ásamt því að hóta honum og segja: „Haltu kjafti, ég finn hvar þú átt heima og ég drep þig.“ 

Aftur í fangaklefa

Síðar sama mánuð var maðurinn aftur staddur í fangaklefa. Þar hótaði hann lögreglumanni með því að segja: „Ég brýt á þér puttann, ég brýt á þér puttann“. Síðan mun hann hafa snúið upp á fingur lögreglumannsins ásamt því að hrækja í andlit lögreglukonu og hótað henni. Einnig á hann að hafa sagt við lögreglukonuna: „Haltu fokking kjafti pussan þín, ég fokking drep þig, ég finn hvar þú átt heima og ég fokking drep þig og ég er ekki að djóka.“

Er sá ákærði dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar sem er skilorðsbundin til tveggja ára. Á hann að greiða brotaþola 600.000 krónur ásamt vöxtum og 530.100 krónur í lögmannskostnað. Ákærði greiði einnig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 1.116.000 krónur, þóknun verjanda á rannsóknarstigi, 139.500 krónur, og 251.172 krónur í annan sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert