Framkvæmdir í sumar á Hlemmsvæðinu

Mynd úr kynningarefni af væntanlegu Hlemmsvæði.
Mynd úr kynningarefni af væntanlegu Hlemmsvæði. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Nú fer að líða að því að fyrstu áfangar á Hlemmsvæðinu komist á framkvæmdastig. Annars vegar áfanginn frá Snorrabraut að Hlemmtorgi, sem hefst í júlí í sumar, og hins vegar yfirborðs- og gatnahönnun fyrir Rauðarárstíg, norður af Hlemmi. 

Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar. Þar segir að svæðið verði hannað sem vistgata á einum fleti og allt rýmið verði hellulagt.

Útboð opnuð í lok maí

Gatnamót við Bríetartún verða hækkuð upp og akstursrými afmarkað með tveggja og fjögurra sentimetra háum kantsteini. Gert er ráð fyrir því að gatan verði hönnuð sem einn flötur og að akstursrýmið verði hellulagt. Rauðarárstígur verður lokaður til suðurs við Gasstöðina á Hlemmi og með snúningshring fyrir fólksbíla í botni götunnar. Rafhleðslustæði eru nyrst í götunni og sleppistæði fyrir leigubíla.

Útboð fyrir þessa framkvæmd verða opnuð 30. maí. Framkvæmdir ættu að geta hafist seinni hluta júnímánaðar. Breytingin hefur þau áhrif á Strætó að leiðir 16 og 17 munu ekki lengur stoppa við Rauðarárstíg, heldur færast að Hlemmi Mathöll.

Lokanir fyrir bílaumferð á Rauðarárstíg munu taka gildi um leið og framkvæmdir hefjast en aðgengi að gönguleiðum verður gott og aðgengi á gangstéttinni heldur sér mestallan tímann.

Töluverð klöpp er á Rauðarárstíg sem þarf að losa og verður verktakanum gefinn kostur á bæði sprengingum og fleygun. Sprengingar verða notaðar til þess að hraða framvindu verksins og að stytta tímann sem framkvæmdirnar taka. Gera má ráð fyrir hávaða á vinnutíma í um það bil þrjá mánuði, eða frá lok júní og út september, en þessi tímaáætlun verður skýrari um leið og verkáætlun verktaka liggur fyrir. Verklok eru áætluð vorið 2023.

Lokanir og hjáleiðir

Rauðarárstígur verður lokaður vélknúinni umferð frá Bríetartúni að Hverfisgötu.

  1. Bílstjórum á leið að Hlemmi er beint austur Laugaveg við Katrínartún.
  2. Bílstjórum á leið vestur Bríetartún að Snorrabraut er beint um Þórunnartún og Borgartún.
  3. Bílstjórum á Snorrabraut á leið austur Bríetartún er beint um Borgartún.
mbl.is