Funda með tæknifyrirtækjum um íslenska tungu

Íslenska sendinefndin.
Íslenska sendinefndin. Ljósmynd/Facebook

Sendinefnd Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, er nú stödd á Vesturströnd Bandaríkjanna, þar sem nefndin hefur síðustu daga fundað með stórfyrirtækjum í tækniiðnaði. Markmið ferðarinnar er að sýna forsvarsmönnum þessara fyrirtækja fram á mikilvægi þess að íslensk tunga eigi sinn sess í þróun á nýjum máltæknilausnum svo unnt verði að tala íslensku við tölvur og tæki og tryggja þannig framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi.

„Við erum saman í sókn fyrir íslenskum og þar eru spennandi tímar framundan,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, sem situr í sendinefnd forsetans, í færslu á Facebook-síðu sinni.

Lilja segir í færslunni að það að tryggja stafræna framtíð íslensku kalli á breiða samvinnu og að þegar hafi unnist áfangasigrar gegnum máltækniverkefni stjórnvalda með þátttöku almennings, vísindafólks og frumkvöðla. 

„Við heyrðum meðal annars hjá Apple að fá ríki eru komin jafn langt og Ísland í að þróa máltækni fyrir tungumálið sitt. Það sýnir okkur að við erum á réttri leið. Allir þeir sem koma að verkefninu, allt frá hugbúnaðarverkfræðingum til málvísindafólks. Íslensk stjórnvöld koma með heilmikið að borðinu, og hafa stjórnvöld fjárfest í þessum mikilvægu innviðum sem tæknifyrirtækin hér munu geta notað. Það er gleðilegt að finna fyrir samstarfsvilja hér úti og ég er bjartsýn á árangur – þetta fer geysivel af stað,“ skrifar Lilja. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert