Kennarar MA skora á ráðherra

Menntaskólinn á Akureyri.
Menntaskólinn á Akureyri. Ljósmynd/mbl.is

Kennarafélagi Menntaskólans á Akureyri skorar á ráðherra að hefja umsóknarferli við skipun skólameistara menntaskólans á ný með nýrri skólanefnd. Ástæðan er vantraust á störfum núverandi skólanefndar, sem félagið telur að eigi að leysa frá störfum. Þetta kemur fram í erindi kennarafélagsins til menntamálaráðuneytisins.

Til að sátt ríki um skipunina hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ákveðið að skipa sérstaka hæfninefnd utanaðkomandi sérfræðinga til að leggja mat á sömu gögn frá umsækjendum og skólanefndin byggði umsögn sína á.

Mennta- og barnamálaráðherra skipar skólameistara til fimm ára í senn að fenginni umsögn skólanefndar. Ráðuneytið hefur móttekið umsögn skólanefndar MA vegna skipunar nýs skólameistara.

Við skipun skólameistara leggur ráðuneytið heildstætt mat á umsækjendur á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram komu í auglýsingu um embættið. Til grundvallar slíku mati eru umsóknargögn umsækjanda sem taka m.a. til ferilskrár, kynningarbréfs og framtíðarsýnar fyrir skólann, frammistöðu umsækjenda í starfsviðtölum og meðmæla auk umsagnar skólanefndar. Að loknu heildstæðu mati tekur ráðherra sjálfstæða ákvörðun um skipun hæfasta umsækjanda í embættið byggða á öllum fyrirliggjandi gögnum. Ábendingar Kennarafélags MA hafa borist ráðuneytinu og er erindið nú einnig hluti af gögnum málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert