Kröfðust gagna vegna ríkisborgararéttar

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir Pírati.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir Pírati. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu það á Alþingi að Útlendingastofnun hafi ekki afhent þinginu gögn til að það geti veitt fólki ríkisborgararétt.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði þingið „sí og æ í slagsmálum við Útlendingastofnun“ um afgreiðslu umsóknanna, sem neiti að afhenda þinginu gögnin.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Píarata, sagðist gruna að Útlendingastofnun „kunni ekki að meta að við hleypum þessu fólki inn“. Stofnunin sé að loka hjáleið framhjá stjórnsýsluafgreiðslu „til þess einmitt að þingið hætti alltaf að sýna þessa mannúð sem við erum að gera hér tvisvar á ári“. Afgreiða skuli umsóknirnar í desember og að vori.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Arnþór

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði það ekki gott að „þingmenn geri grýlu úr opinberum starfsmönnum sem eru að vinna vinnuna sína“.  Hún sagði Útlendingastofnun ekki neita að afhenda gögn. Afstaða stofnunarinnar og ráðherra hafi verið að umsóknir um ríkisborgararétt skuli vinnast í tímaröð. Ljóst sé að breyta þurfi verklagi varðandi veitingu ríkisborgararéttar á Alþingi.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði tímabært fyrir löngu að höggva á hnútinn, á meðan Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem einnig er þingmaður Viðreisnar, sagði að embættismenn ættu ekki að segja Alþingi fyrir verkum.

mbl.is