Óvenjulegir skjálftar vestur af Snæfellsjökli

Frá Djúpalónssandi á vesturströnd Snæfellsness.
Frá Djúpalónssandi á vesturströnd Snæfellsness. mbl.is/Eggert

„Áhugaverð virkni vestur af Snæfellsjökli í síðustu viku!“ tísti Kristín Jónsdóttir, eldfjalla- og jarðskjálftafræðingur, hópstjóri í náttúruváreftirliti hjá Veðurstofu Íslands, í gær.

Bendir hún á að skjálftar hafi mælst úti fyrir Snæfellsnesi. Þar hafa aldrei áður mæst skjálftar svo vitað sé. 

Kristín segir mikilvægt að missa ekki sjónar á annarri virkni þó að vel sé fylgst með Reykjanesskaga þessa dagana.  

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir í samtali við mbl.is að þrír mælar hafi verið settir upp við Snæfellsjökul í september 2020 en fyrir það hafi ekki verið mæligeta á svæðinu. 

Skjáskot úr Skjálfta-Lísu, skjálftasjá veðurstofunnar.
Skjáskot úr Skjálfta-Lísu, skjálftasjá veðurstofunnar.

 Mælakerfið orðið stórt

„Við höfum ekki mælt neina skjálfta þarna þangað til núna. Það þýðir að þarna er að losna út einhver spenna. Það er gaman að sjá hvað mælakerfið okkar er orðið stórt, að það takist að greina þetta,“ segir Einar. 

Stærsti skjálftinn sem mældist á svæðinu var 2,6 að stærð. 

„Það er áhugavert að sjá að það eru skjálftar þarna vestar en Snæfellsjökull sjálfur.“

Einar segir að ekki hafi verið vitað áður hvort virkni væri á svæðinu. Vitað hafi verið að það kæmu af og til skjálftar í Snæfellsjökul sem ekki væri verið að mæla. „Þar sem þetta er megineldstöð var ákveðið að setja upp þessa þrjá mæla svo að ef eitthvað færi að gerast undir Snæfellsjökli hefðum við betri yfirsýn.“

mbl.is