Sækist eftir áframhaldandi formennsku

Anna Hildur Guðmundsdóttir sem kosin var sem formaður SÁÁ í byrjun árs, eftir miklar og óvæntar vendingar innan samtakanna hefur ákveðið að sækjast eftir áframhaldandi formennsku. Hún ræðir þessa ákvörðun í Dagmálum. Stefnt er að því að halda aðalfund samtakanna í næsta mánuði.

Hún segir samtökin hafa bjargað lífi sínu og vilji hún leggja sitt af mörkum til að styrkja þau og leiða í verkefnum sem framundan eru.

Í þættinum segir hún sína sögu sem leiddi til þess að hún fór í áfengismeðferð árið 2005. Hún segist hafa reynt hundrað sinnum að hætta að drekka en án árangurs þar til hún leitaði á náðir samtakanna.

„Ég var kvíðin og þunglynd og fannst ég einskis virði á þessum tíma,“ upplýsir Anna Hildur. Hún segist ekki vita hvort eða hverjir muni bjóða sig fram til formennsku en hún er reiðubúin að láta gott af sér leiða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert