Aldrei svart og hvítt

Vinkonurnar við enda regnbogans, f.v. Hulda Hrund Jónasdóttir, Elínborg Þorsteinsdóttir, …
Vinkonurnar við enda regnbogans, f.v. Hulda Hrund Jónasdóttir, Elínborg Þorsteinsdóttir, Berglind Magdalena Valdimarsdóttir og Þórdís sem hér er til viðtals. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef bara alltaf haft mjög mikinn áhuga á velferð nemenda,“ segir Þórdís Eva Sigurðardóttir, grunnskólakennari við Árbæjarskóla til margra ára sem dreif sig í meistaranám í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands og leggur í vor fram lokaritgerð sína þar, Velferð í ráðgjöf – reynsla náms- og starfsráðgjafa í framhaldsskólum. Greinir Þórdís þar frá eigindlegri rannsókn sinni sem snerist um að fá innsýn í hlutverk framangreinds starfsfólks, náms- og starfsráðgjafa í framhaldsskólum, jafnt innan sem utan höfuðborgarsvæðisins.

Byggir Þórdís rannsókn sína á viðtölum við átta náms- og starfsráðgjafa og þeirra sýn á það hvernig stuðlað sé að velferð nemenda í ráðgjöf. „Þá kannar höfundur einnig reynslu náms- og starfsráðgjafa af hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði og styrkleikum og hvort velferðarvinnan auki starfsánægju ráðgjafanna,“ eins og greinir frá í inngangi.

Alltaf notað persónulega nálgun

Fram kemur í rannsókn Þórdísar að ráðgjafar telji mikilvægt að veita nemendum þetta utanumhald í náminu, að einhver sem hlustar, komi auga á styrkleika þeirra og hafi trú á þeim sé til staðar. Náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskólum gegni þarna lykilhlutverki við að stuðla að velferð nemenda. Enn fremur tala ráðgjafarnir um að gefandi sé að vinna að velferð nemenda og leiðbeina þeim í skólastarfinu.

Þórdís kveðst alla tíð hafa verið áhugasöm um velferð nemenda …
Þórdís kveðst alla tíð hafa verið áhugasöm um velferð nemenda sinna og hafi sá áhugi orðið kveikjan að meistaranáminu í náms- og starfsráðgjöf. Ljósmynd/Íris Stefánsdóttir

„Það er bara þannig í kennslu að krakkarnir eru alls konar, þeir þurfa alls konar aðstoð og það þarf að hlusta á þá og huga að ýmsum málum. Ég gaf mér alltaf mjög góðan tíma í það,“ segir Þórdís í samtali við Morgunblaðið og kveður hennar nemendur jafnan hafa haft mikinn aðgang að henni í skólanum og hafi hún lagt sérstaka áherslu á að vera til staðar fyrir þá. „Mér fannst þetta alltaf virka líka ofan í kennsluna, ef þeim leið vel gekk allt betur í skólanum,“ heldur hún áfram.

„Svo hætti maður kannski að kenna þessum krökkum og fékk nýja nemendur en hinir héldu samt áfram að koma til mín til að spjalla og spyrja. Í frímínútum og bara öllum stundum var ég „námsráðgjafi“. Þetta er eitt af því sem heillar mig við kennsluna, að vera til staðar fyrir nemendur og kenna þeim á lífið og sjálfa sig. Ég hef alltaf notað þessa persónulegu nálgun í minni kennslu og þetta varð einmitt kveikjan að því að ég fór í þetta nám,“ segir Þórdís sem var að kenna á miðstigi, 5. – 7. bekk.

„Ég á greinilega að vera arkitekt“

Hún er Reykvíkingur, stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þaðan sem leið hennar lá í íslensku við HÍ sem hún lauk þó ekki heldur settist á skólabekk í Kennaraháskólanum þegar hann var og hét. „Þá hef ég sótt hin og þessi námskeið, svo sem varðandi leiðsagnarkennslu og fleira og verið leiðsagnarkennari sem er leiðbeinandi fyrir kennaranema í starfsnámi,“ segir Þórdís frá, henni þyki mikilvægt að gera hlutina af einlægni og vera af alvöru í því sem hún tekur sér fyrir hendur. „Standa með sjálfum sér og þeim sem skipta mann máli, gildi góðra vina og félaga verður seint ofmetið auk þess að eiga góða að.“

Við Árbæjarskóla kennir alla jafna ekki leðurklætt pönkgengi en hér …
Við Árbæjarskóla kennir alla jafna ekki leðurklætt pönkgengi en hér er brugðið á leik á öskudag 2020, í árdaga Covid. Samkennararnir Berglind Magdalena Valdimarsdóttir og Hulda Hrund Jónasdóttir, Þórdís í miðjunni. Ljósmynd/Aðsend

Spurð út í náms- og starfsráðgjöfina sem fag, og hvort nemendur eða væntanlegir nemendur geti þreytt áhugasviðspróf sem leiði þá í allan sanninn um starfsferilinn fram undan, segir Þórdís að ekkert sé einfalt í þessu fagi frekar en svo mörgum öðrum. „Það að leita sér aðstoðar hjá ráðgjafa gengur í meginatriðum út á það að leiðbeina fólki til þess að geta náð markmiðum sínum í sambandi við náms- og starfsval og áhugasviðspróf geta gjarnan gefið vísbendingar sem fólk getur nýtt sér í leit sinni að námi eða starfi,“ útskýrir hún.

„Oft kveikir þetta bara einhverjar hugmyndir hjá fólki, gefur því vísbendingar um hvar styrkur þess liggur, svo sem þessi áhugasviðspróf, en það er nú almennt ekki þannig að fólk segi sem svo „jahá, frábært, ég á greinilega að vera arkitekt svo ég ætla bara að læra það,“ þetta er ekki svart og hvítt frekar en svo margt annað, en engu að síður er mikil þörf fyrir þessa fræðigrein að mínu mati,“ heldur Þórdís áfram og nefnir sem dæmi að nú til dags sé skipulag kringum nám ekki eins einfalt og áður var, framboð á fjölbreytilegustu sí- og endurmenntun hafi til dæmis stóraukist og raunfærnimat komið til sögunnar, formlegt mat á þekkingu og hæfni fólks sem verður til víða annars staðar en í skólastofum.

Ætlar að vinna við þetta einhvern tímann

„Nú er fólk líka að flytja hingað frá alls konar löndum, nýbúar og flóttafólk svo eitthvað sé nefnt, Vinnumálastofnun er í einhverjum tilfellum að þjónusta þetta fólk með náms- og starfsráðgjöf og það er bara svo ótrúlega margt í gangi á þessum vettvangi núna sem fólk veit ekki endilega af,“ segir Þórdís. Stundum virki hlutirnir og stundum ekki, eins og alls staðar í lífinu. Sumir eigi auðveldara en aðrir með að taka leiðsögn og tileinka sér þau ráð sem þeim bjóðast í námsráðgjöf, öðrum gangi slíkt síður í haginn.

Með dótturinni Sæfinnu Bjarnadóttur í Árbænum sumarið 2020. Þórdís segir …
Með dótturinni Sæfinnu Bjarnadóttur í Árbænum sumarið 2020. Þórdís segir að það að leita sér aðstoðar hjá ráðgjafa gangi í meginatriðum út á að leiðbeina fólki til þess að geta náð markmiðum sínum í sambandi við náms- og starfsval. Ljósmynd/Aðsend

Þórdís heldur til baka í sitt fyrra starf við kennslu að meistaranáminu loknu. Reiknar hún þá með að verða ríkari af eiginleikum og þekkingu sem nýtast muni í kennslunni án þess að hún hyggist beinlínis gerast náms- og starfsráðgjafi strax? „Mér finnst aðallega skipta miklu máli að vera alltaf að læra eitthvað nýtt. Í þessu tilfelli langaði mig bara að gera eitthvað, prófa eitthvað nýtt. Almennt séð held ég að þetta muni gagnast mér og ég ætla mér að vinna við þetta einhvern tímann þótt það verði kannski ekki strax,“ svarar Þórdís.

Hún kveður skólasystkini hennar í meistaranáminu hafa komið úr öllum áttum og lagt að baki mjög ólíkar fyrri háskólagráður. Þau hafi verið nokkrir tugir í náminu en örðugra væri að gera grein fyrir stemmningunni. „Ja, það var náttúrulega bara Covid-stemmning, það var nú ekkert öðruvísi,“ svarar hún að nýafstöðnu tímabili er einkenndist af óvenjulegum samgangi fólks í námi jafnt sem á vinnumarkaði.

Lánsöm með samstarfsfólk

Kveðst hún full tilhlökkunar að takast á við kennsluna á nýjan leik er þar að kemur. „Í Árbæjarskóla er afskaplega gott að vinna og þar hef ég kynnst alveg frábæru fólki sem hefur kennt mér mikið. Ég er ekki bara eitthvert eyland, þetta byggist allt á samvinnu og ef þú ert í góðu teymi þá gerast góðir hlutir,“ segir kennarinn og kveður lykilþætti starfsins samvinnu fagaðila sem geri starfið meira lifandi og skemmtilegt.

Tekið á köldum málminum á crossfit-æfingu í Kötlu í mars …
Tekið á köldum málminum á crossfit-æfingu í Kötlu í mars enda hreyfing seint ofmetin í stífu háskólanámi. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef verið svo lánsöm að vinna með mörgum góðum kennurum í gegnum tíðina, fólki sem ég hef lært ótalmargt af,“ gerir Þórdís Eva Sigurðardóttir, kennari við Árbæjarskóla og meistaranemi í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands, að sínum lokaorðum í samtali um kennslu, ráðgjöf og gildi góðs samstarfs.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert