Átti í samskiptum við fórnarlömb sín á Snapchat

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.isÓmar Óskarsson

Maður sem dæmdur var í sex ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn börnum var dæmdur fyrir brot gegn alls fimm börnum. Hann er grunaður um fleiri kyn­ferðis­brot sem enn eru til rann­sókn­ar.

Öll börnin eru stúlkur á grunnskólaaldri. 

Fyrir brot gegn A var maðurinn meðal annars sakaður um kynferðislega áreitni gegn barni, brot gegn barnaverndar- og áfengislögum og lögum um rafrettur með því að hafa frá mars til nóvember á síðasta ári á samfélagsmiðlinum Snapchat ítrekað viðhaft kynferðislegt tal við A og fengið hana ítrekað til að senda sér kynferðislegar myndir og myndbönd af sér, m.a. af berum brjóstum og kynfærum.

Þá sendi maðurinn stúlkunni ítrekað myndir og myndbönd af kynfærum sínum auk þess sem hann sendi henni myndbönd af B, öðru fórnarlambi mannsins, hafa munnmök við sig. Maðurinn afhenti A á sama tímabili ýmis kynlífshjálpartæki, undirföt, níkótínpúða, rafrettur, áfyllingar í rafrettur og áfengi gegn því að hún sendi honum myndefnið. 

Maðurinn var gagnvart A einnig m.a. ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni með því að hafa síðasta vor í bifreið, með ólögmætri nauðung og án samþykkis, látið A hafa við sig munnmök og sett fingur í leggöng hennar, en ákærði nýtti sér yfirburðarstöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs- og þroskamunar og þar sem hún var ein með honum fjarri öðrum. 

Fékk tvær stúlknanna til að taka sig upp 

Þá var maðurinn ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn börnum A og C með því að hafa vorið 2021 með ólögmætri nauðung í krafti yfirburðarstöðu sinnar vegna aldurs og þroskamunar og með því að lofa þeim gjöfum, afhent A áfestanlegan gervilim og fengið hana og C til að nota hann og taka af því myndband sem þær svo sendu manninum. 

Maðurinn var jafnframt ákærður fyrir kynferðislega áreitni gagnvart C með því að hafa í upphafi árs 2021 á Snapchat, ítrekað fengið hana til að senda sér kynferðislegt myndefni af henni, sent henni kynferðislegt myndefni af öðrum stúlkum og myndband af B að hafa munnmök við sig, auk þess að hafa afhent stúlkunni kynlífshjálpartæki og undirföt gegn því að hún sendi honum kynferðislegt myndefni.

Gagnvart barni B var maðurinn m.a. ákærður fyrir kynferðislega áreitni gegn barni með því að hafa á tímabilinu frá mars eða apríl til júní 2018, á Snapchat, ítrekað fengið B til að senda sér kynferðislegt myndefni af sér og sent henni myndir og myndbönd af kynfærum sínum. Hann var einnig ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn B með því að hafa um vorið 2018 í bifreið, með ólögmætri nauðung og án samþykkis, haft samræði og önnur kynferðismök við B, en maðurinn nýtti sér yfirburðarstöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs- og þroskamunar og þar sem hún var ein með honum fjarri öðrum. Maðurinn var einnig ákærður fyrir að taka myndbönd af brotum sínum gagnvart B. 

Reyndi ítrekað að mæla sér mót við tvö fórnarlömb 

Maðurinn var enn fremur ákærður fyrir brot gegn D með því að hafa á tímabilinu frá ágúst 2020 til apríl 2021 á Snapchat ítrekað viðhaft kynferðislegt tal við D og fengið hana ítrekað til að senda sér kynferðislegar myndir og myndbönd af sér. Þá sendi maðurinn D ítrekað myndir og myndbönd af kynfærum sínum. Maðurinn var jafnframt ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni með því að hafa ítrekað í samskiptum við D á Snapchat reynt að mæla sér mót við hana í því skyni að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök. 

Þá var maðurinn ákærður fyrir kynferðislega áreitni gagnvart E með því að hafa á Snapchat ítekað viðhaft kynferðislegt tal við E og fengið hana til að senda sér kynferðislegar myndir og myndbönd af sér. Þá sendi maðurinn stúlkunni ítrekað myndir og myndbönd af kynfærum sínum auk þess að senda henni kynferðislegar myndir og myndbönd af öðru fólki. Maðurinn var einnig ákærður fyrir kynferðisbrot gegn E með því að hafa ítrekað í samskiptum við hana á Snapchat reynt að mæla sér mót við hana í því skyni að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök. Maðurinn var einnig ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni með því að hafa í júlí 2020 með ólögmætri nauðung í krafti yfirburðarstöðu sinnar fengið E til að fróa sér með notkun kynlífshjálpartækis sem maðurinn gaf henni og taka myndband af því sem hún svo sendi manninum. 

Í október 2021 kærði Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar manninn til lögreglu. Rannsókn lögreglu leiddi til þess að grunur féll á ákærða og 5. nóvember 2021 fékkst heimild lögreglustjóra fyrir tálbeituaðgerð sem fólst í því að taka yfir síma brotaþola og halda áfram samskiptum við ákærða í gegnum samskiptamiðilinn Snapchat. Samskiptum við ákærða var haldið áfram 7. nóvember 2021 en þeim lauk daginn eftir þegar hann var handtekinn.

Auk sex ára fangelsisdóms var manninum gert að sæta upptöku á farsíma hans, og að greiða öllum fimm fórnarlömbum sínum miskabætur á bilinu ein milljón króna til 2,5 milljónir króna.

mbl.is