Gæti koðnað niður eða gosið

Þensla hefur verið á Svartsengi vegna kvikusöfnunar.
Þensla hefur verið á Svartsengi vegna kvikusöfnunar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innistæða er fyrir stórum jarðskjálfta í Brennisteinsfjöllum og á einhverjum tímapunkti mun hann hrökkva, það er þó ekki hægt að spá fyrir um jarðskjálfta og því ómögulegt að segja til um hvort hann verði á næstu dögum eða næstu árum, að sögn náttúruvársérfræðings. 

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að skjálftavirkni hafi verið svipuð í dag og síðastliðna tvo daga. Dregið hafi úr stórum skjálftum en um 650 minni skjálftar séu að mælast á sólarhring. 

Fólk skuli huga að jarðskjálftavörnum

Jarðskjálftarnir hafa mælst sitthvoru megin við sprunguna í Brennisteinsfjalli og því færist það nær í tíma að Brennisteinsskjálftinn gæti hrokkið. 

Slíkur skjálfti getur orðið rúmlega 6 stig, og kæmi til með að hafa mest áhrif á höfuðborgarsvæðið. 

„Ég myndi hvetja fólk til að huga að festingum á hillum, sofa ekki undir þungum hillum og kynna sér bara vel ráð almannavarna um viðbrögð við stærri skjálftum.“

Síðasti jarðskjálfti á umræddu svæði var árið 1968, og þar áður árið 1929. 

Stór skjálfti í Brennisteinsfjöllum hefði mest áhrif á höfuðborgarsvæðið.
Stór skjálfti í Brennisteinsfjöllum hefði mest áhrif á höfuðborgarsvæðið. Rax / Ragnar Axelsson

Mun annaðhvort koðna niður eða gjósa

Kvika hefur verið að þenjast upp á Reykjanesinu, að sögn Einars. 

„Hún er á 4 til 6 kílómetra dýpi og veldur þessari spennubreytingu á svæðinu og auknu skjálftavirkni þar.“

Annaðhvort á þenslan eftir að koðna niður, svo við tekur hægari fasi, eða þá mun hún brjótast út með eldgosi. 

„Það hafa komið fjögur þenslutímabil síðan 2020 sem hafa ekki leitt til neins í framhaldinu, það er því alveg líklegt að það gerist ekkert á þessu svæði í framhaldinu en við verðum þó að vakta þetta náið. Það gæti alveg gerst að við sjáum eitthvað nýtt í mælingunum sem bendir til þess að það gæti farið að gjósa.“

Yrði flæðigos eins og Fagradalsfjall

Ný gervihnattagögn ættu að liggja fyrir í byrjun næstu viku og þá geta sérfræðingar dregið frekari ályktanir af hegðun kvikunnar, um líklega þróun. 

Ef til eldgoss kæmi, yrði það flæðigos, líkt og eldgosið í Fagradalsfjalli. Einar telur ekki tímabært að segja til um það hvar það kæmi upp eða hvaða áhrif það kæmi til með að hafa. 

„Þenslan er undir Svartsengi og það er kvika að þrýstast þar upp og landið að rísa, en það þýðir ekki endilega að það fari að gjósa á þessu svæði.“

Þannig gæti hægst á landrisinu, það stoppað og þensla hafist annarsstaðar. „Það borgar sig að fylgjast bara með þessu dag frá degi.“

Fjallgöngufólk fari varlega

Veðurstofan varar við grjóthruni og skrifum á Reykjanesinu vegna skjálftavirkninnar. Einar segir þetta helst eiga við um fólk í fjallgöngum.

Þegar eldgos fór af stað í Fagradalsfjalli hafi skjálftavirkni aukist verulega og grjóthrun orðið í hlíðum fjalla í nágrenninu. Því sé æskilegt fyrir göngugarpa að hafa varann á og fylgjast með klettum fyrir ofan sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert