Ósáttir við synjun á veitingastyrk

Aðalstöðvar skattsins, við Laugaveg.
Aðalstöðvar skattsins, við Laugaveg. mbl.is/sisi

„Þetta veldur okkur miklum vonbrigðum og ég óttast að fleiri sitji í súpunni,“ segir Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði.

Fjórir veitingamenn, sem reka samtals 15 veitingastaði, hafa sett sig í samband við samtökin á síðustu dögum eftir að hafa fengið synjun á svokölluðum veitingastyrk. Styrkurinn er veittur vegna tekjufalls í veitingarekstri á tímabilinu nóvember 2021 til og með mars 2022 til þeirra sem sætt hafa takmörkunum á þjónustutíma. Tekjufall þarf að hafa verið að minnsta kosti 20% og fyrirtæki þurfa að uppfylla fleiri skilyrði að því er fram kemur á heimasíðu Skattsins.

Aðalgeir segir að frumvarp um veitingastyrk hafi verið orðað þannig að veitingamenn gætu sótt um annað tímabil sem væri lýsandi fyrir tap þeirra ef rök væru færð fyrir því að það tímabil gæfi betri mynd af rekstrartjóni. Raunin virðist vera sú að Skatturinn taki ekki þessar röksemdir gildar, sem sé einmitt það sem samtökin hafi óttast.

Kastað út í horn enn á ný

„Það kemur í ljós að Skatturinn setur okkur stólinn fyrir dyrnar og vill ekki taka inn annað tímabil. Við höfum óskað eftir gögnum frá Skattinum um það hversu margir hafa fengið neitun,“ segir Aðalgeir.

Hann segist hafa bundið vonir við þetta úrræði og því séu þetta vonbrigði. „Enn og aftur finnst okkur greininni kastað út í horn. Hún þarf stuðning miðað við það sem á undan er gengið. Auðvitað bera veitingamenn sig vel en staðan er alvarleg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »