Strákarnir fengu kennslu í endurlífgun og hjúkrun

9. bekkur Langholtsskóla fá innsýn í störf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.
9. bekkur Langholtsskóla fá innsýn í störf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Strákarnir voru gríðarlega áhugasamir, spurðu mikið og voru glaðir með þetta,“ segir Eygló Ingadóttir, hjúkrunarfræðingur og formaður jafnréttisnefndar Landspítalans.

Um 50 strákar í 9. bekk Langholtsskóla fengu í gær innsýn í störf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Sendinefnd heilbrigðisstarfsmanna kom í skólann með ýmsan búnað meðferðis til að sýna þeim út á hvað störfin ganga. Heimsóknin er hluti af verkefninu Strákar og hjúkrun sem hófst í fyrra. Markmið þess er að vekja áhuga stráka á hjúkrunarstörfum, breyta staðalímyndum og fjölga körlum sem leggja fyrir sig hjúkrunarstörf, þannig að árið 2030 séu karlmenn a.m.k. 20% þeirra sem hefja nám í hjúkrunarfræði og á sjúkraliðabrautum. Verkefni þetta hófst í fyrra og fengu þá um 500 strákar í 9. bekk slíka kynningu og stefnt er að því að annar eins fjöldi fái kynningu í ár.

„Við erum ekkert að lesa yfir strákunum heldur að leyfa þeim að prófa og sjá út á hvað þetta gengur. Þeir fara á nokkrar stöðvar, fá að handleika sprautur og æfa sig að sprauta, þeir fá að endurlífga og svo skiptast þeir á að leika slasaðan dreng og sinna honum og hjúkra. Þá fá þeir að skoða sár og meðferð við sárum auk þess sem þeim er kennd Heimlich-aðferðin,“ segir Eygló.

Hún segir að fjármagn hafi fengist til verkefnisins til tveggja ára og óskandi væri að meira fjármagn fengist til að halda áfram á næsta ári. Hér á landi séu karlar bara 3% af þeim sem starfa sem hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar en í flestum löndum sem við berum okkur saman við sé hlutfallið um og yfir 10%.

„Við viljum fá fleiri karla. Það er mikil synd að karlmenn sjái þetta ekki sem frábæran starfsvettvang. Við þurfum að brjóta niður staðalímyndir í kringum þessi störf. Það gengur vel að brjóta þær niður hvað varðar karlastörf en ekki hvað varðar það sem stundum hafa verið kölluð kvennastörf,“ segir Eygló.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert