Sumstaðar ekki hægt að bóka tíma hjá heimilislækni

Í sumar má gera ráð fyrir að víða verði ekki …
Í sumar má gera ráð fyrir að víða verði ekki hægt að bóka tíma hefðbundna tíma á heilsugsæslustöðvum. mbl.is/Árni Sæberg

Meðalbiðtími eftir tíma hjá heimilislækni á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu er um tvær til þrjár vikur. Sumstaðar er biðtíminn hins vegar töluvert lengri, jafnvel einhverjir mánuðir, og dæmi eru um að ekki sé hægt að bóka hefðbundinn tíma hjá heimilislækni yfir höfuð vegna mikillar eftirspurnar og manneklu.

Í sumar má gera ráð fyrir því að víða verði ekki í boði að bóka tíma hjá heimilislæknum, heldur verði heilsugæslan meira opin og þeir sem eru í vinnunni hverju sinni hjálpist að við að leysa þau mál sem koma upp.

Þetta staðfestir Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Hann segir stöðuna mjög erfiða víða en alltaf sé reynt að leysa úr málum sem þola ekki bið. Biðtíminn eftir hefðbundnum tíma hjá heimilislækni geti hins vegar verið langur.

„Þá erum við meira að tala um eftirlitstíma en ef það þarf að leysa eitthvað sem kemur upp á þá er það nú yfirleitt alltaf gert. Við leysum þetta og þess vegna er yfirleitt mjög mikið um að vera hjá okkur. Læknum hefur ekki fjölgað þó verkefnum heilsugæslunnar hafi fjölgað. Þetta er er búið að vera dálítið erfitt, en fólk sem getur ekki beðið það kemur. Við reynum að leysa öll vandamál,“ segir Óskar. „En auðvitað myndum við vilja hafa þetta öðruvísi,“ bætir hann við.

Markmiðið er að koma öllu í farveg 

Mikil eftirspurn er eftir tímum hjá heimilislæknum en að sögn Óskars eru nú margir farnir að taka út frí eftir litla frítöku síðustu tvö ár vegna kórónuveirufaraldursins. Það þyngir róðurinn enn frekar og tímar eru fljótir að fara.

Óskar segir að sama vandamálið sé til staðar á flestum heilsugæslustöðvum en hann bendir á að það sé alltaf opið og fólk geti alltaf komið á heilsugæsluna. „Ef fólk fær ekki tíma þá getur það alltaf mætt. Við erum með hjúkrunarfræðinga og lækna sem eru alltaf á vakt. En fólk vill kannski hitta einhvern sem það þekkir.“

Fólki stendur alltaf til að boða að koma og hitta hjúkrunarfræðing sem getur vísað viðkomandi áfram til læknis ef þörf þykir og þá er einnig í boði að koma á síðdegisvakt eftir að hefðbundnum afgreiðslutíma lýkur.

Þá segir Óskar að gott geti verið fyrir fólk sem ekki er með bráðavanda, en þarf engu að síður að hitta lækni, að bóka fyrst símatíma. Þannig sé hægt að hefja ferli við að leysa vandamálið þó ekki sé hægt að bóka tíma hjá lækni.

„Við höfum það markmið að koma öllu í farveg, en auðvitað er biðtíminn ekki ásættanlegur eins og hann er akkúrat núna. Svo breytist þetta nú oft á sumrin og getur breyst í allar áttir.“

Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir stöðuna víða erfiða.
Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir stöðuna víða erfiða. mbl.is/Sigurður Bogi

Myndu ráða alla sem sækja um vinnu 

Eitt stærsta vandamálið sem heilsugæslan glímir við um þessar mundir er skortur á heimilislæknum sem kemur sér illa þegar eftirspurnin er að aukast.

„Það eru of fáir heimilislæknar og svo sannarlega vantar okkur heimilislækna. Við myndum örugglega ráða alla sem myndu sækja um vinnu hjá okkur núna. Það er eitt af vandamálunum hjá okkur. Við er líkum heldur vinsælli heldur en við vorum. Annars vegar er heilsugæslan þekktari núna og hins vegar er ekki eins auðvelt að komast að hjá sérfræðilæknum og var áður.“

Óskar bendir á alltaf sé að verið að vinna í að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Mannekla setji þó strik í reikninginn.

„Það er áfangi sem við verðum að vinna í áfram og til þess þurfum við að halda áfram að styrkja einingarnar, en það er vandamál ef það er ekki til fólk til að vinna vinnuna.“

Enginn að útskrifast á þessu ári

Hann segir heimilislækningar frekar vinsæla sérgrein núna en um 100 læknar eru í sérnámi í heimilislækningum. Námið er hins vegar langt og það tekur tíma fyrir fólk að skila sér út á vinnumarkaðinn.

„Það eru tvö ár síðan það var tekin ákvörðun um að efla þetta og við tókum inn nokkra og erum að taka inn nokkra á hverju ári, en akkúrat í ár er enginn að útskrifast. Á næsta ári er staðan betri þannig ég er mjög bjartsýnn ef við lítum fram á veginn. Miðað við þær áætlanir sem við erum með þá mun þetta smám saman batna, en það er samt áður þannig að akkúrat þetta ár gæti orðið dálítið erfitt.“

Á meðan staðan er jafn erfið og raun ber vitni þarf heilsugæslan að gera breytingar á fyrirkomulagi varðandi tímabókanir og í sumar verður farið aftur til fortíðar að ákveðnu leyti.

„Við verðum örugglega ekki mikið að bóka tíma í sumar. Það verður örugglega meira bara opið, þannig að fólk bara mæti. Það er svona gamaldags módel eins og var á árum áður. Fólk kemur þá, hringir eða hefur samband með rafrænum hætti og allir sem eru í vinnunni hjálpast að við að leysa úr því. Það eru allavega margar stöðvar búnar að ákveða að gera það þannig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert