Waldorfskólinn fær Foreldraverðlaunin 2022

Frá verðlaunaafhendingunni í dag.
Frá verðlaunaafhendingunni í dag. Ljósmynd/Aðsend

Waldorfskólinn í Lækjarbotnum hlaut í dag Foreldraverðlaunin 2020, en Foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru afhent í 27. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag, fimmtudaginn 19. maí. 

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra ásamt Elizu Reid forsetafrú, ávörpuðu samkomuna og afhentu verðlaunin.

Í ár hlaut Waldorfskólinn í Lækjarbotnum Foreldraverðlaun Heimilis og skóla fyrir verkefnið „Vinnudagar Lækjarbotna og gróðursetning plantna á skólasetningu“.

Sérstök dómnefnd fór yfir allar tilnefningar líkt og vant er og valdi verðlaunahafa.

Waldorfskólinn í Lækjarbotnum er einkarekinn skóli sem fer eftir uppeldisfræði Rudolf Steiners. Á hverju ári við skólasetningu skólans leggur skólinn til trjáplöntur sem eru gróðursettar af nemendum og foreldrum. Þannig hefur skólasamfélagið í Lækjarbotnum grætt upp Lækjarbotnaland í rúm 30 ár og sýnt hverjum nemanda og foreldri að allt skiptir máli þegar græða á upp landið.

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla árið 2022 er Hlín Magnúsdóttir, deildarstjóri sérkennslu í Helgafellsskóla, leik- og grunnskóla. Hlín heldur úti námssamfélaginu „Fjölbreyttar kennsluaðferðir” fyrir fjöruga krakka, sem samanstendur af vefsíðu, facebook-síðu og instagram-reikningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert