Apríl gefur góð fyrirheit

Ferðamenn í miðborginni.
Ferðamenn í miðborginni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls fóru 102.800 erlendir ferðamenn í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar í apríl. Það eru 15% færri en apríl 2019. Apríl kom mun betur út en fyrstu þrír mánuðir ársins að þessu leyti. Um 44% færri erlendir ferðamenn fóru í gegnum Leifsstöð á fyrstu þremur mánuðum ársins en á sama tímabili 2019.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans, sem lofar góðu fyrir ferðasumarið miðað við aprílmánuð.

Alls fóru 102.800 erlendir ferðamenn í gegnum Leifsstöð í apríl. …
Alls fóru 102.800 erlendir ferðamenn í gegnum Leifsstöð í apríl. Það eru 15% færri en apríl 2019. mbl.is/Árni Sæberg

15% færri erlendir ferðamenn í apríl í ár en 2019

Brottfarir erlendra ferðamanna í gegnum Leifsstöð voru 102.800 í apríl. Til samanburðar voru þær 5.800 í apríl 2021 og 900 í apríl 2020, en þá var veirufaraldurinn með öllum sínum ferðatakmörkunum í hámarki. Eðlilegra er því að miða við 2019 og sést að brottfarir nú voru einungis um 15% færri en þá. 

Velta erlendra greiðslukorta 14,1 milljarður

Velta erlendra greiðslukorta hér landi var 14,1 milljarður króna í apríl, sem er 5% lægra en árið 2019. Þrátt fyrir að að um 15% færri ferðamenn séu landinu þá bendir tölfræðin til þess að hver ferðamaður eyðir nú meira en fyrir veiruna. Í hagspá Hagfræðideildar Landsbankans kemur einnig fram að gistinætur á hótelum voru um 19% færri nú í apríl en 2019 sem og bílaleigubílar í umferð voru um 18% færri nú í apríl en 2019.

Stefnir í góða vertíð í ferðaþjónustu

Tölur aprílmánaðar gefa fyrirheit um að það stefni í góða vertíð í ferðaþjónustu hér á landi í sumar, en ágúst er sá mánuður sem erlendir ferðamenn eru flestir hér á landi. Í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans segir að stígandinn sem af er ári lofar góður, þar sem hver mánuður er nær því sem var fyrir faraldur en mánuðurinn á undan.

„Áætlað framboð á flugi frá Leifsstöð fram í september er síðan svipað og var á sama tíma árið 2019. Í nýbirtri þjóðhags- og verðbólguspá gerum við ráð fyrir um 1.500 þúsund ferðamönnum í ár. Gangi það eftir munu erlendir ferðamenn í ár vera um 25% færri en árið 2019. Fjöldi áskorana er samt til staðar, þá aðallega sem snúa að getu greinarinnar til þess að taka við þessum fjölda ferðamanna vegna skorts á starfsfólki," segir í Hagsjánni.

Ferðamenn sækja gjarnan í nátturuna hér á landi í ferðalögum …
Ferðamenn sækja gjarnan í nátturuna hér á landi í ferðalögum sínum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is