Gagnrýndur fyrir „like“ og hættir ráðgjöf

Ríkisendurskoðandi hafði samband við Hersi 11. apríl og óskaði eftir …
Ríkisendurskoðandi hafði samband við Hersi 11. apríl og óskaði eftir því að hann yrði Ríkisendurskoðun til ráðgjafar við úttekt hennar á bankasölunni. Það gerði hann þangað til í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hersir Sigurgeirsson, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, hefur lokið aðkomu sinni að úttekt Ríkisendurskoðunar á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hann gerir það eftir að ríkisendurskoðanda barst bréf frá Bankasýslunni með ábendingu um að hann hafi sett „like“ á tiltekna færslu á Facebook er varðaði útboðið.

Hersir greinir frá málavöxtu á facebook-síðu sinni en bréfið frá Bankasýslunni var alls þrjár síður, undirritað rafrænt af forstjóra hennar.

Ríkisendurskoðandi hafði samband við Hersi 11. apríl og óskaði eftir því að hann yrði Ríkisendurskoðun til ráðgjafar við úttekt hennar á sölunni. Það gerði hann þangað til í gær.

„Ég kann ekki við slíkt eftirlit“

Þegar forstjóri og starfsmenn Bankasýslunnar eru farnir að verja tíma sínum í að rekja ferðir mínar á samfélagsmiðlum og tilkynna skriflega, rafrænt undirritað, um “like” finnst mér þó ástæða til að staldra við. Ég kann ekki við slíkt eftirlit. Það er alvarlegt þegar starfsmenn ríkisstofnunar telja eðlilegt að leggjast í rannsókn á skoðunum ráðgjafa óháðra úttektaraðila og gera það á jafn hæpnum og huglægum forsendum og hér birtast,“ skrifar Hersir.

Hann segir ekki hægt að setja „like“ við þessi vinnubrögð.

Ég sé ekki aðra skýringu á bréfaskrifum Bankasýslunnar en að hún telji sig geta notað þau til að kasta rýrð á úttekt Ríkisendurskoðunar ef einhverjar niðurstöður hennar verða stofnuninni ekki að skapi. Það hugnast mér ekki og því ákvað ég í gær að ljúka aðkomu minni að úttektinni,“ skrifar Hersir.

 

mbl.is