Hyggst kæra hestaauglýsingu Íslandsstofu

Hér sést mynd af hestinum í kirkjugarðinum.
Hér sést mynd af hestinum í kirkjugarðinum. Ljósmynd/Íslandsstofa

Sigurgeir Ómar Sigmundsson var þrumu lostinn þegar hann sá hest traðka á leiðum í Búðakirkjugarði í nýrri auglýsingu Íslandsstofu en þar eru faðir hans, amma og afi og aðrir ættingjar grafin.

„Það er mjög óþægilegt að sjá þetta og slæmt. Þetta er algjörlega óviðeigandi. Það má gera eitt og annað til þess að reyna að ná í ferðamenn en ekki traðka á leiðum fólks,“ segir Sigurgeir í samtali við mbl.is.

„Þetta er bara gjörsamlega komið út fyrir öll mörk.“

Sigurgeir hyggst leggja fram kæru hjá lögreglustjóranum á Vesturlandi á mánudag verði auglýsingin ennþá í birtingu.

„Þetta virðist sýna brot á lögum um kirkjugarða og almennum hegningarlögum. Þetta er algjört virðingarleysi fyrir látnu fólki og ættingjum þess. Það eru grafir þarna út um allt, flestar ómerktar en samt grafir,“ segir Sigurgeir.

Uppfært kl. 09.49: Framleiðslufyrirtækið Republik, sem stóð að auglýsingu Íslandsstofu, hafnar því að traðkað hafi verið á leiðum. Farið hafi verið eftir öllum reglum undir eftirliti kirkjuvarðar. 

Búðakirkja á Snæfellsnesi.
Búðakirkja á Snæfellsnesi. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina