Líflegt ferðasumar fram undan

Reiknað er með að um 1,4 milljónir erlendra ferðamanna komi …
Reiknað er með að um 1,4 milljónir erlendra ferðamanna komi til Íslands á árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðasumarið fer vel af stað í hópferðaflutningum og þéttbókað er í ferðir yfir sumarmánuðina. Forsvarsmenn rútufyrirtækja eru prýðilega bjartsýnir á komandi mánuði.

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, segist sjá mikla aukningu í hópferðum. „Að einhverju leyti skýrist það af því að það er vöntun á bílaleigubílum og verðið hjá þeim hefur farið upp. Þar af leiðandi batnar samkeppnisstaða hópferðabílanna,“ segir hann.

Þórir segir útlitið í bókunum fyrir sumarið ágætt og nokkuð vel bókað á tímabilinu júní og alveg fram í september. „Svipað heyri ég hjá flestum mínum kollegum. Þetta fer hraðar af stað en kannski bjartsýnustu menn þorðu að vona eftir covid,“ segir hann.

Þórir segir lykilatriði þessara umskipta að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki voru mjög dugleg á tíma faraldursins að rækta sambandið við viðskiptavini sína og tryggja að þeir yrðu tilbúnir að koma til baka þegar færi gæfist eins og nú sé að koma á daginn.

Flestir ferðamennirnir koma frá Bandaríkjunum og Evrópulöndum en enn ber miklu minna á ferðamönnum frá Kína og öðrum Asíulöndum. Gengið hefur þokkalega að ráða starfsfólk fyrir sumarið að sögn hans.

Spurður hvort búast megi við álíka miklum önnum og á árunum fyrir faraldurinn segir Þórir erfitt að segja fyrir um það, en ef eingöngu sé litið á hásumarið, sérstaklega júlí og ágúst, megi reikna með að fjöldinn verði svipaður og var sumarið 2019.

„Allt á réttri leið“

„Það eru öll teikn á lofti um að þetta verði líflegra en það hefur verið. Þetta er allt á réttri leið,“ segir Hallgrímur Lárusson, forstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Snæland-Grímsson, sem er með stóran flota hópferðabíla. Hallgrímur segir bókunarstöðuna líta vel út og einnig sé áhugavert að núna í maí og fram í júní sé mikil hreyfing á Íslendingum, sem lærðu betur að meta ferðalög um eigið land á tímum faraldursins og hafa áttað sig á því hvað ferðaþjónustan um allt land hefur byggst mikið upp og hefur upp á margt að bjóða, auk þess sem nú virðist skólakrakkar loksins komast í allar sínar vorferðir, ólíkt því sem var á tímum covid.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert