„Mikilvægt að geta talað íslensku við tækin“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, segir för sína til Kaliforníu í Bandaríkjunum hafa verið mjög árangursríka. Hann ferðaðist þangað ásamt sendinefnd í þeim tilgangi að funda með bandarískum stórfyrirtækjum í tækniiðnaði um mik­il­vægi þess að ís­lensk tunga eigi sinn sess í þróun á nýj­ustu mál­tækni­lausn­um. 

Markmiðið er að hægt sé að tala íslensku við tæki sem þessi fyrirtæki framleiða, á borð við Siri og Alexu.

„Það er gaman að fá að tala loksins íslensku,“ grínast Guðni í byrjun samtalsins og vísar til þess að tilgangur ferðarinnar var að tryggja sess íslenskar tungu í stafrænum heimi. 

Gengið vel

Segir Guðni það hafa gengið einstaklega vel á fundum með fyrirtækjum á borð við Apple, Meta, Microsoft, Amazon og fleiri stórfyrirtækjum.

„Fundirnir hafa gengið mjög vel, leyfi ég mér að segja og þeir hafa gengið vel, því við höfum ekkert komið á hnjánum með betlistaf í hendi.“

Að sögn Guðna leist fulltrúum fyrirtækjanna vel á þetta framtak að varðveita íslenskuna. „Fulltrúar þessara fyrirtækja gera sér vel grein fyrir því að rekstri samfélagsmiðla fylgir samfélagsábyrgð.“

Segir forsetinn að í þessari samfélagsábyrgð felist að tryggja að tungumál geti þrifist í stafrænum heimi. Hann kveðst því vera mjög bjartsýnn um framtíð íslenskrar tungu. 

Mæta vel búin á fundina

Forsetinn bendir á að hann hafi verið með öfluga sveit sér við hlið á fundunum. Ásamt forseta er sendi­nefnd­in skipuð Lilju Al­freðsdótt­ur, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, Hall­dóri Benja­mín Þor­bergs­syni, fram­kvæmda­stjóra Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, Jó­hönnu Vig­dísi Guðmunds­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra Al­mannaróms, Jóni Guðna­syni, for­stöðumanni Gervi­greind­ar­set­urs Há­skól­ans í Reykja­vík og Vil­hjálmi Þor­steins­syni, stofn­anda hug­búnaðarfyr­ir­tæk­is­ins Miðeind­ar.

Segir Guðni það hafa verið einkar hjálplegt að geta tekið með sér íslenskan gagnagrunn af stórum orðabanka með sér til funda við þessi fyrirtæki. Hann bendir á að þessi orðabanki geti komið fyrirtækjunum að góðum notum í máltæknilausnum. 

„Þegar við komum til þeirra með þau skilaboð að við hefðum yfir að ráða mögnuðum orðabanka sem við gætum unnið með í samstarfi við þessi fyrirtæki þá sperrtu þessir sérfræðingar eyrun og fannst mikið til koma.“

Forsetinn bendir á að síðan í október 2019 hafa Íslendingar safnað í orðabankann þremur milljónum setninga. Því sé greinilega um stórt safn að ræða. Hann segist vera þakklátur fyrir það hversu margir Íslendingar hafi tekið þátt í samstarfinu en það eru rúmlega 30.000 manns. 

Mjög mikilvægt skref

Guðni tekur þar að auki fram að það að varðveita íslensku í stafrænum heimi sé mikilvægt skref í að vernda þjóðartunguna. 

„Þau okkar sem yngst eru í samfélaginu er orðin vön því að tala við símana sína, tala við Alexu, tala við Siri og fleira en þá er enska tungumálið sem gildir.“

Segir Guðni það vera nauðsynlegt að geta talað íslensku við tæki og tól til að tryggja stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu okkar.

mbl.is