Reyndi að hlaupa undan lögreglu

Ökumaður í Kópavogi sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu í gærkvöldi og reyndi að komast undan. Varð eftirförin ekki löng þar sem viðkomandi ók fljótlega á aðra bifreið, en lét hann sér þó ekki segjast og reyndi að hlaupa undan lögreglu. Var hann handtekinn eftir þó nokkra mótspyrnu, en viðkomandi reyndist undir áhrifum fíkniefna og með fíkniefni í fórum sínum.

Gistir hann nú fangageymslur uns unnt verður að yfirheyra hans vegna málsins. Engin slys urðu á fólki við áreksturinn.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en alls gistu sjö fangageymslur lögreglu í nótt.

Fljótlega eftir miðnætti var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í fyrirtæki í austurborginni. Var aðili handtekinn þar innan dyra, en hann reyndist hafa spennt upp glugga að húsnæðinu. Gistir hann nú fangageymslur þar til unnt verður að yfirheyra hann.

Framkvæmd var húsleit í Kópavogi vegna gruns um að þar væru ræktuð fíkniefni. Reyndist það rétt vera og var hald lagt á fíkniefni og búnað til ræktunar. Einn handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna málsins.

Í Hafnarfirði var rútu ekið utan í lögreglubifreið þannig að af hlutust minniháttar skemmdir. Síðar um nóttina var tilkynnt um eld í bifreið í Hafnarfirði, en skemmdir urðu einnig á nærliggjandi bíl vegna eldsins. Eldsupptök liggja ekki fyrir.

Undir morgun var tilkynnt um konu í Kópavogi sem gengi öskrandi milli húsa. Reyndist hundur konunnar hafa horfið út úr íbúðinni og leitaði hún hans með fullmiklum hávaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert