Áforma baðlaug úti í Laugarvatni

Gestir heilsulindarinnar Fontana njóta ylsins frá hvernum. Áform eru um …
Gestir heilsulindarinnar Fontana njóta ylsins frá hvernum. Áform eru um að tengja laugarnar betur við vatnið og gera þær náttúrulegar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stjórnendur Gufu ehf., móðurfélags baðstaðarins Fontana á Laugarvatni, hafa áhuga á að stækka staðinn og breyta. Meðal annars er vilji til að gera laugarnar náttúrulegar og jafnvel að hafa eina úti í Laugarvatni.

Gufa hefur sótt um stækkun byggingarlóðar til sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, að tvöfalda kaup á heitu vatni og um stækkun bílastæða. Sigurður Rafn Hilmarsson framkvæmdastjóri tekur fram að áformin séu enn á frumstigi. „Við höfum áhuga á að breyta staðnum og stækka hann og tileinka okkur nýja tæknimöguleika og fleira sem við höfum ekki verið að nýta okkur til þessa,“ segir hann.

Yrðu náttúrulegar laugar

Sigurður segir að áhugi sé á því að breyta lögun lauganna. Tengja þær náttúrunni meira en nú þegar er, jafnvel að hafa eina laug úti í sjálfu vatninu. Hugmyndin er að gera laugarnar sem nú eru blandaðar með klór að náttúrulegum laugum.

Hugmyndin er að stækka búningsaðstöðu. Meiri kröfur eru nú gerðar til aðstöðu gesta en áður var. Það yrði meðal annars gert með því að lengja húsið í báða enda. Einnig að byggja yfir garðinn sem er í miðju húsinu og skapa þar kaffiaðstöðu.

„Það eru margar spennandi hugmyndir í gangi og verður gaman að sjá lokaútgáfuna,“ segir Sigurður. Hann segir að framkvæmdir hafi ekki verið tímasettar enda eigi eftir að ganga frá breytingu á deiliskipulagi, en sjálfur hefði hann viljað hefja framkvæmdir í haust eða fyrrihluta vetrar.

Leitað að heitu vatni

Vegna stækkunarinnar þarf Fontana að tvöfalda kaup sín á heitu vatni. Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri segir að vatnið úr hvernum á Laugarvatni dugi núverandi starfsemi og íbúum á Laugarvatni en lítið umfram það. Hún segir að til standi að gera rannsóknarholur í sumar til að finna stað til að bora vinnsluholu til að virkja meira vatn.

Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »