Handtekinn á leiðinni úr sundi í nótt

Hreinsun í Árbæjarlaug.
Hreinsun í Árbæjarlaug. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður á fimmtugsaldri gekk um og framdi skemmdarverk í Árbænum frá því klukkan tíu í gærkvöldi þangað til hann var handtekinn á leiðinni úr sundi, klukkan þrjú í nótt.

Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is að maðurinn hafi verið í annarlegu ástandi.

Skúli gat ekki sagt hvað manninum gekk til en hann á sér brotaferil hjá lögreglunni.

Maðurinn var í annarlegu ástandi

„Maðurinn var í annarlegu ástandi og stal rafhlaupahjóli. Hann fer inni í Árbæjarsafn, brýtur rúður, rótar í einhverju, tekur gaskút og er svo tekinn þegar hann er að yfirgefa Árbæjarlaug. Hann var ekkert í góðu ástandi,“ segir Skúli.

Þá braust maðurinn einnig inn í tvö heimahús en þýfið hans var eingöngu gaskúturinn og hlaupahjólið, sem hefur verið skilað til eiganda síns.

Skúli gat ekki séð neitt bókað hjá lögreglu um skemmdarverk sem maðurinn hafði valdið í sundlauginni en Vísir greindi frá því að maðurinn hafði farið um tækjakjallara laugarinnar og tekið þar leiðslur í sundur sem varð til þess að ekkert heitt vatn var í sturtum laugarinnar í morgun.

mbl.is