Ríkið greiði Atlantsolíu 87 milljónir

Atlantsolía höfðaði mál á hendur ríkinu til endurgreiðslu á svokölluðu …
Atlantsolía höfðaði mál á hendur ríkinu til endurgreiðslu á svokölluðu flutningsjöfnunargjaldi sem lagt var á fyrirtækið á árunum 2016 til 2019. mbl.is

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að endurgreiða Atlantsolíu tæplega 87 milljónir króna vegna ofgreiddra gjalda sökum ólögmætrar skattheimtu, auk vaxta, dráttarvaxta og málskostnaðar. 

Atlantsolía höfðaði mál á hendur ríkinu til endurgreiðslu á svokölluðu flutningsjöfnunargjaldi sem lagt var á fyrirtækið á árunum 2016 til 2019.

Flutningsjöfnunargjald var hugsað til þess að jafna flutningskostnað á olíuvörum sem ætlaðar voru til nota innanlands. 

Sýknað í héraðsdómi

Atlantsolía byggði á því að umrætt gjald væri skattur, en skattlagningargjaldið hafi verið framselt stjórnvöldum. 

Til þess að leggja á skatt þarf skýra lagaheimild, en ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. 

Í héraðsdómi var fallist á að um skatt væri að ræða en niðurstaðan var þó sú að lagaheimildin hafi verið fullnægjandi, enda væri þar gerð grein fyrir útfærslu útreiknings skattsins.

Var þannig ekki fallist á að um of víðtækt framsal væri að ræða og ríkið því sýknað af kröfum fyrirtækisins. 

Landsréttur sammála Atlantsolíu

Landsréttur komst svo að öndverðri niðurstöðu. Þar sem lögin mæltu ekki fyrir um fjárhæð skattsins, heldur var Byggðastofnun falið að ákveða hana.

Þá var stjórn innflutningssjóðs olíuvara falið að úrskurða um tiltekna hluta fjárhæðarinnar.

Þar með hafi átt sér stað of víðtækt framsal á skattlagningarheimildum löggjafans. 

mbl.is