„Þú svo sem ræður því, góða mín“

Náttúran umlykur mann og maður er svo kátur þegar upp …
Náttúran umlykur mann og maður er svo kátur þegar upp úr er komið. Nær að skola allt af sér í sjónum,“ segir Kristín. Ljósmynd/Egill Eðvarðsson

„Ég hefði aldrei verið svona dugleg ef Egill hefði ekki verið með. Hann pískaði mig áfram,“ segir sjósundskonan Kristín Jórunn Hjartardóttir sem ákvað að halda upp á sextugsafmæli sitt með því að synda á 60 mismunandi stöðum á Íslandi. Unnusti hennar, Egill Eðvarðsson, fylgdi henni sem skugginn á ferðalaginu og skráði ævintýrið í máli og myndum. Í vikunni kom svo út bókin Fær í flestan sjó með yfir 300 ljósmyndum og textum Egils. 

Hún brosir til Egils sem segir ánægjuna alfarið hafa verið sína. „Það hefur verið með ólíkindum að sjá Kristínu synda við allar þessar aðstæður. Í raun engu líkt. Ég er bara auðmjúkur þjónn hennar.“

Þetta ævintýri hefur líka snúist um svo miklu meira en bara sundið. „Á þessum tæpu þremur árum höfum við farið marga hringi um landið okkar. Þetta dásamlega fallega land. Þetta er skemmtilegasta ferðalag sem ég hef farið í á ævinni. Ég hef aldrei upplifað landið svona sterkt áður,“ segir Kristín.

Kærustuparið Egill Eðvarðsson og Kristín Jórunn Hjartardóttir ætlar að ganga …
Kærustuparið Egill Eðvarðsson og Kristín Jórunn Hjartardóttir ætlar að ganga í hjónaband í sumar. Ljósmynd/Egill Eðvarðsson


„Sama segi ég,“ grípur Egill boltann á lofti, „og hef ég þó farið í ófáar ferðirnar með Ómari Ragnarssyni – sem er ekki leiðinlegt. Þetta hefur verið yndislegt og rómantískt ferðalag á alla vegu.“

Sem dæmi um fegurðina nefna þau Barðaströnd, þar sem þau komu á síðkvöldi. „Klukkan var orðin hálftólf og orðið of dimmt til að synda,“ segir Egill. „En það var svo falleg nótt að detta inn að við ákváðum að sofa bara í bílnum. Fá okkur hvítvínsglas, brauð og osta. Það verður ekkert miklu betra.“

Þokan reyndist eiturgufur

Það eru líka hrakningasögur. Eins og þegar þau komu, líka á síðkvöldi, upp að Langasjó á liðnu hausti. Jökulhlaup var í gangi og Egill og Kristín fundu fljótt að ekki var allt með felldu. „Það byrjaði með því að okkur fór að svíða í augun, síðan kom nefrennsli og þrengingar í hálsi. Upp fyrir okkur rann ljós, það sem við héldum að væri bara þoka voru sumsé eiturgufur. Það var þá skýringin á því að enginn annar en við var þarna á ferð,“ segir Egill.

Kristín Jórunn segir engu líkt að synda innan um ísklumpana …
Kristín Jórunn segir engu líkt að synda innan um ísklumpana í Fjallsárlóni. Ljósmynd/Egill Eðvarðsson


Þau drifu sig aftur niður á þjóðveginn og Egill fann þetta líka ljómandi fína rjóður til að hafast við um nóttina. Honum brá heldur betur í brún um morguninn: Þau voru aðeins um 10 metra frá þjóðveginum og hvergi tré að sjá. „Það var þá aldeilis rjóðrið sem mér hafði fundist við vera í um nóttina,“ segir hann hlæjandi.

Loksins þegar Kristín náði að stinga sér til sunds í Langasjó voru höfuðskepnurnar í essinu sínu. „Við stoppuðum í klukkustund og fengum allar mögulegar útgáfur af íslensku veðri,“ rifjar Egill upp. „Það var sól, él, snjókoma og svo hvasst um tíma að Kristín þurfti að leggjast niður áður en hún fór í sjóinn.“

Hún gat þó synt en það myndi hún aldrei gera ef hún teldi aðstæður ekki öruggar. Þar kemur reynslan í góðar þarfir. Og eðlishvötin.

„Það gerðist einu sinni á ferðalagi okkar, við Skálavík fyrir vestan. Fljótt á litið virtist vera um kjöraðstæður að ræða en ég fékk samt á tilfinninguna að staðurinn væri ekki öruggur. Það væri of mikið öldurót. Straumarnir eru ekki endilega sýnilegir,“ segir Kristín og Egill bætir við að óvanir sjósundsmenn beri ekki alltaf skynbragð á þetta.

„Svo skiptir líka máli hvort maður hefur komið á staðinn áður. Það er allt annað að synda á stað í fyrsta eða annað sinn,“ segir Kristín sem hefur kút með sér í sjóinn, þegar það á við.

Kristín Jórunn syndir í Lagarfljóti. Ormurinn fylgist spenntur með.
Kristín Jórunn syndir í Lagarfljóti. Ormurinn fylgist spenntur með. Ljósmynd/Egill Eðvarðsson


„Ég hef séð Kristínu ströggla aðeins við að komast í land. Ekkert alvarlegt en það er samt óþægilegt enda er ég ekki að fara að grípa í taumana ef eitthvað kemur upp á. Myndi drukkna fyrr en mér tækist að bjarga henni. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að búa að bæði reynslu og þekkingu áður en farið er í sjóinn á nýjum stöðum,“ segir Egill.

Ætlarðu ekki að synda?

Hann viðurkennir þó að listamaðurinn í honum hafi orðið vonsvikinn í Skálavík enda staðurinn með afbrigðum fallegur. „Ætlarðu ekki að synda? spurði hann,“ segir Kristín sposk. Þau voru búin að keyra langa leið í þungri færð og hún komin í sundbolinn og með kútinn í flæðarmálinu. „Þú svo sem ræður því, góða mín,“ mun hann hafa sagt undrandi enda allir vinklar klárir. En vonbrigðin viku hratt fyrir gleði. „Þetta er frábært element að hafa, hún veit upp á hár hvenær hún getur synt og hvenær ekki,“ segir hann. Staðurinn er þó í bókinni, meira að segja mynd á innkápunni af Kristínu að klæða sig í flæðarmálinu.

Kristín Jórunn bregður á leik á Mýrunum.
Kristín Jórunn bregður á leik á Mýrunum. Ljósmynd/Egill Eðvarðsson


Hann viðurkennir að hafa einu sinni verið óheiðarlegur gagnvart sunddrottningunni. Það var í Kálfshamarsvík. „Ég sá fram á að geta tekið æðislegar myndir þarna, vinklarnir voru þrælgóðir. Óþefurinn var hins vegar að drepa okkur og Kristín ekki viss hvort hún ætti að synda. Hún vissi ekki hvaðan fýlan kom enda stóð ég vandlega fyrir slitrum af búrhval, sem rekið hafði á land með tilheyrandi ýldulykt, svo hún sæi hann ekki.“

Hann hlær.

Nánar er rætt við Kristínu og Egil í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »