Tilraunir til netárása færast sífellt í vöxt

Óvissustig almannavarna var í fyrsta skipti virkjað vegna netógnar í …
Óvissustig almannavarna var í fyrsta skipti virkjað vegna netógnar í fyrra þegar í ljós kom mjög alvarlegur veikleiki í kóðasafninu Log4j.

Netárásum fer fjölgandi og fjárhagslegt tjón sem af þeim hlýst getur verið geysilega mikið, að ótöldum þeim skaða sem verður vegna taps á gögnum og stöðvun á vinnslu. Í fyrra bárust netöryggissveitinni CERT-IS tæplega 600 tilkynningar um netöryggisatvik af ýmsum toga, rösklega tvöfalt fleiri en á árinu á undan þegar þau voru 266.

40 milljarða tjón á ári

Í nýútkomnu ársyfirliti CERT-IS fyrir síðasta ár kemur fram að þegar gert er ráð fyrir að um 1,5% af vergri landsframleiðslu hér á landi tapist vegna netglæpa, jafngildi það um 40 milljörðum á ári.

Sú fjárhæð gæti orðið enn hærri á þessu ári, því samkvæmt Guðmundi Arnari Sigmundssyni, forstöðumanni CERT-IS, hefur þróunin, það sem af er þessu ári, verið svipuð og á síðasta ári. „Það er stígandi vöxtur í flestum flokkum mismunandi tegunda árása,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið um tilkynningarnar frá síðustu áramótum.

Netöryggissveitin hefur ekki skynjaranet til að fylgjast með netumferðinni, heldur byggjast upplýsingarnar á tilkynningum sem henni berast um atvik sem varða netöryggi. Segir í ársskýrslunni að líklega megi rekja gríðarlega fjölgun tilkynninga í fyrra til tveggja þátta. „Annars vegar almennrar fjölgunar á atvikum tengdum netöryggi í heiminum og hins vegar þess að fyrirtæki og stofnanir eru duglegri en áður um að tilkynna um atvik sem verða í þeirra kerfum.“

Fjölgun hefur orðið í öllum tegundum netárása

Öllum tegundum netárása hefur fjölgað merkjanlega. Í fyrra var áberandi að tilkynningum fjölgaði mest vegna svindls á netinu, m.a. um svonefndar vefveiðar. Þá er reynt að safna viðkvæmum upplýsingum, svo sem um kortanúmer og lykilorð, með því að villa á sér heimildir, t.d. í gegnum tölvupóst eða með eftirmynd af þekktri síðu. Tilkynnt var um 446 slík atvik í fyrra.

Nánari umfjöllun má sjá í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert