Biðu storminn af sér í fjóra daga á Grænlandsjökli

Hópurinn hitti annan íslenskan hóp á miðjum jöklinum: Leiðangur á …
Hópurinn hitti annan íslenskan hóp á miðjum jöklinum: Leiðangur á vegum Vertu úti. Þá voru fagnaðarfundir þar sem flaggað var íslenskum og grænlenskum fánum. Aðsend/Einar Finnsson

Mánaðarlöngum leiðangri Arctic Hiking yfir Grænlandsjökul lauk í gær og eru allir í hópnum komnir heilir til Kangerlussuaq í Syðri-Straumfirði.

Leiðangurinn hófst 23. apríl þegar hópurinn var ferjaður með þyrlu frá Tasiilaq á austur Grænlandi upp á Hahn jökul, skriðjökul sem gengur úr Grænlandsjökli.

Sex voru í hópnum í heildina og leiðangursstjóri Einar Torfi Finnsson. Auk hans voru þau Ágúst Jóel Magnússon, Elísabet Sólbergsdóttir, Jón Viðar Baldursson, Lilja Stefánsdóttir og Ólafur Darri Andrason.

Einnig var töluvert vindasamt og þurfti hópurinn að bíða af …
Einnig var töluvert vindasamt og þurfti hópurinn að bíða af sér veður í fjóra daga í tjöldum. Aðsend/Einar Finnsson

Hvít eyðimörk

„Þetta var náttúrulega bara vel heppnaður leiðangur, gekk vel, en það voru erfiðar aðstæður,“ segir Einar í samtali við mbl.is. Þetta er í fimmta skipti sem hann gengur jökulinn.

Óvenju kalt var að sögn Einars og fór kuldinn oft á tíðum niður fyrir 20 mínusgráður. Einnig var töluvert vindasamt og þurfti hópurinn að bíða af sér veður í fjóra daga í tjöldum.

„Á endanum voru þetta 28 dagar, fjórir biðdagar og 24 göngudagar. 550 kílómetrar, eitthvað svoleiðis.“

Óvenju kalt var að sögn Einars og fór kuldinn oft …
Óvenju kalt var að sögn Einars og fór kuldinn oft á tíðum niður fyrir 20 mínusgráður. Aðsend/Einar Finnsson

Þrátt fyrir erfitt veðurfar á köflum átti hópurinn þó nokkra daga þar sem þau gátu notið fegurðar jökulsins.

„Þetta er náttúrulega bara hvít eyðimörk,“ í segir Einar spurður hvort fegurð Grænlandsjökuls jafnist á við fegurð íslenska hálendisins, en eftir þriðja dag á jöklinum sést ekki lengur í fjöll.

„Fegurðin í því eru ljósir litir og blæbrigði í snjónum sem maður er annars ekki að taka eftir.“

Tvö stórafmæli í hópnum

Einar segir að á heildina litið hafi ferðin gengið vel. Endaspretturinn hafi þó tekið á og erfitt hafi verið að komast niður skriðjökulinn í lokin. Síðustu sjö til átta kílómetrarnir í gær hafi því tekið tæpa átta tíma.

„En þetta gekk allt vel. Við náðum landi í gær um sexleytið á grænlenskum tíma. Allir bara rosa hressir og kátir.“

Tvö stórafmæli voru á meðan leiðangrinum stóð. Fyrst varð Ágúst sextugur þann 7. maí og síðan varð Jón fimmtugur 10. maí.

Leiðangurinn hófst 23. apríl þegar hópurinn var ferjaður með þyrlu …
Leiðangurinn hófst 23. apríl þegar hópurinn var ferjaður með þyrlu frá Tasiilaq á austur Grænlandi upp á Hahn jökul, skriðjökul sem gengur úr Grænlandsjökli. Aðsend/Einar Finnsson

„Auðvitað fögnuðum við því alveg sérstaklega, vorum með smá poka af „aukabitum“ í tilefni dagsins,“ segir Einar og vísar til sérstaks poka af súkkulaði og öðru góðgæti sem geymt hafði verið fyrir stórafmælin tvö.

„Það var mjög gaman að því.“

Milli afmælanna, þann 8. maí, hitti hópurinn annan íslenskan hóp á miðjum jöklinum: Leiðangur á vegum Vertu úti. Þá voru fagnaðarfundir þar sem flaggað var íslenskum og grænlenskum fánum og sungið auk þess sem hóparnir færðu hvor öðrum gjafir.

„Þetta er náttúrulega bara hvít eyðimörk,“ í segir Einar spurður …
„Þetta er náttúrulega bara hvít eyðimörk,“ í segir Einar spurður hvort fegurð Grænlandsjökuls jafnist á við fegurð íslenska hálendisins. Aðsend/Einar Finnsson
mbl.is