Yfir 700 manns mættu og perluðu 3.055 armbönd

mbl.is/Óttar Geirsson

Yfir 700 manns lögðu leið sína í Hörpu í dag og perluðu 3.055 armbönd til styrktar Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðsandendur.

Um er að ræða fimmtu útgáfu af hinum vinsælu „Lífið er núna“-armböndum sem Kraftur selur til fjáröflunar.

Nýja armbandið perlað. Glittir í appelsínugulu perluna sem er táknræn.
Nýja armbandið perlað. Glittir í appelsínugulu perluna sem er táknræn. mbl.is/Óttar Geirsson

Nýja armbandið er alsvart að undanskilinni einni appelsínugulri perlu og er hluti af nýrri herferð Krafts sem ber nafnið „Vertu perla“.

„Hver og ein perla hefur sína sögu. Þó að við séum að glíma við sama sjúkdóminn þá er enginn að glíma við nákvæmlega það sama. En við erum öll til staðar fyrir hvort annað,“ segir Hrefna Björk Sigvaldadóttir, viðburðar- og fjáröflunarfulltrúi Krafts, í samtali við mbl.is.

Góð mæting var í Hörpu.
Góð mæting var í Hörpu. mbl.is/Óttar Geirsson

Slógu ekki metið en góður árangur engu að síður

Viðburðurinn hefur ekki verið haldinn síðan 2019 sökum heimsfaraldursins en stærsti viðburðurinn sem félagið hefur haldið var 2018 – þar sem um 3.000 manns mættu og perluðu 4.233 armbönd.

Hrefna segir að planið hafi verið að slá það met, sem tókst ekki, en þó megi fagna góðum árangri sem armböndin 3.055 eru.

„Það er mikið áfall fyrir einstakling sem er sem er að greinast með krabbamein, en það getur verið sérstaklega erfitt fyrir ungt fólk í blóma lífsins sem er kannski að stofna fjölskyldu, klára nám með námslán eða kaupa sína fyrstu íbúð.

En þar getur Kraftur komið inn með jafningjastuðning sem og fjárhagslegum stuðningi,“ segir Hrefna og undirstrikar mikilvægi armbandanna, sem er mikilvæg tekjulind Krafts.

mbl.is/Óttar Geirsson

Þakklæti efst í huga

Hún segir þau hjá Krafti vera gríðarlega þakklát öllum sem mættu í Hörpu til að perla og öllum sem hjálpuðu til: Sjálfboðaliðum, styrktaraðilum og skemmtikröftum, til að nefna fáa.

„Núna erum við að fara að leggja áherslu á það að selja þessi armbönd sem við perluðum í dag,“ segir Hrefna að lokum og bendir á heimasíðu herferðarinnar: lifidernuna.is þar sem sala á armböndunum fer fram.

mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is/Óttar Geirsson
Nýja armbandið.
Nýja armbandið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert