Gamli meirihlutinn ekki endurreistur

Einar segir Framsókn enn hafa sterka samningsstöðu.
Einar segir Framsókn enn hafa sterka samningsstöðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Boðað hefur verið til fundar í Framsóknarhúsinu á Hverfisgötu í kvöld þar sem stjórnir framsóknarfélaganna í Reykjavík og öll þau sem áttu sæti á framboðslista Framsóknar fyrir borgarstjórnarkosningar munu hittast og fara yfir möguleikana í viðræðum um myndun nýs meirihluta.

Þetta staðfestir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, í samtali við mbl.is.

Í gær lýsti Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, því yfir að flokkurinn útilokaði samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Það fækkar möguleikunum um myndun nýs meirihluta og þrengir stöðu Framsóknar sem getur þá í raun aðeins myndað meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn.

Einar segir flokkinn þó enn hafa góða samningstöðu, enda sé umboðið skýrt og ákall um breytingar. Farið verði yfir það á fundinum í kvöld hvernig Framsókn nái sem bestum árangri en ekkert sé sjálfgefið þegar kemur að viðræðum um myndun meirihluta. Gamli meirihlutinn verði allavega ekki endurreistur.

Hefur ekki formlegt vægi

„Þetta er fundur með almennum stjórnmálaumræðum um stöðuna í borginni. Þetta er ekki ákvarðanatökufundur eða hefur formlegt vægi, þetta er bara til að viðhafa gott samráð við grasrótina í flokknum. Mér þykir mjög mikilvægt að fá fram öll þau ólíku sjónarmið sem eru í borgarmálununum núna. Það eru miklar skoðanir á því hver staðan er, ekki bara í mínum flokki heldur í öllum flokkum og kjósendur kusu breytingar í borginni og nú þurfum við bara að ræða þessi mál,“ segir Einar um fundinn í kvöld.

Aðspurður hvort að hann telji að í framhaldinu verði hægt að hefja formlegar meirihlutaviðræður við Samfylkingu, Pírata og Viðreisn, segist hann ekki ætla að úttala sig um það.

„Fyrst er að eiga samtalið og sjá hvernig landið liggur. Við þurfum bara að meta það og eiga samtal um það hvort við sjáum fram á að geta náð fram breytingum og þá í samstarfi við hvaða flokka og hverjar línurnar eru í þessu. Hvað er mögulegt að gera.“

Kæmi til greina að vera í minnihluta

Kæmi minnihlutastjórn til greina?

„Við erum tilbúin að skoða alla möguleika en við erum ekkert komin á þennan stað. Þessar línur hafa verið að skýrast, bara í gær. Aðalatriðið er að við buðum okkur fram til að ná árangri og það er það sem við ætlum að gera. Hvar við náum mestum árangri það bara kemur í ljós.“

En kæmi til greina af ykkar hálfu að vera í minnihluta?

„Jújú, ef við sjáum fram á að ná ekki árangri í samstarfi við aðra flokka þá ætlum við ekki að axla pólitíska ábyrgð á því að starfa með flokkum sem munu ekki vinna með okkur að þeim málum sem við börðumst fyrir í kosningabaráttunni. Það gefur auga leið.“

„Flykktust til að kjósa Framsókn“ 

Einar segist ekki ætla að hafa neina sérstaka skoðun á því að Viðreisn hafi útlokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og þannig fækkað möguleikum um myndun nýs meirihluta.

Hann bendir bæði meirihlutinn og minnihlutinn í borginni hafa tapað borgarfulltrúum en skilaboð kjósenda hafi verið hvað skýrust í þá átt að þeir vildu breytingar og „flykktust til að kjósa Framsókn,“ en Framsókn fékk fjóra borgarfulltrúa kjörna.

„Við erum tilbúin að fara í viðræður við alla þá flokka sem eru tilbúnir að ræða um breytingar. Nú er þessi staða uppi og þessir flokkar eru í raun einu flokkarnir sem hægt er að semja við, eins og þetta lítur út núna. Við ætlum að ræða það í kvöld hvort við séum tilbúin til þess og hvað við viljum gera. Það er ekkert sjálfgefið.“

Nýjar áherslur og ný pólitísk forysta

Hann segir flokkinn enn hafa mjög sterka samningstöðu í viðræðum um myndun meirihluta og að Framsókn muni ekki hvika frá neinum gagnvart sínum kjósendum.

„Við erum með skýrt umboð og sterkt ákall frá kjósendum, en því er ekki að neita að þegar ekki eru aðrir kostir í boði þá veikir það samningsstöðuna. Aðalatriðið er það að flokkarnir allir átti sig á því að meirihlutinn féll. Hann verður ekki endurreistur. Það verður myndaður nýr meirihluti með nýjum áherslum og nýrri pólitískri forystu, utan um þau mál sem rætt var um í kosningabaráttunni.“

Spurður hvort það þurfi ekki eitthvað að fara að gerast í viðræðum, nú þegar rúm vika sé liðin frá kosningum, segir hann Framsókn ekki ætla að flýta sér neitt.

„Það er mikilvægt að stjórn borgarinnar gangi vel og ég tel ekki skynsamlegt að setja þessu ferli einhver tímamörk.“

mbl.is