Hjólahvíslarinn klárar sína síðustu vakt í bili

Hjólahvíslarinn hefur hjálpað fjölda borgarbúa nálgast hjólin sín aftur.
Hjólahvíslarinn hefur hjálpað fjölda borgarbúa nálgast hjólin sín aftur. Mbl.is/Sigurður Bogi

Bjartmar Leósson, betur þekktur sem hjólahvíslarinn, hefur ákveðið að taka sér smá frí en í kvöld mun hann klára sína síðustu vakt í bili.

Bjartmar hefur gert garðinn frægan undanfarin ár við að aðstoða borgarbúa við að hafa uppi á hjólum sem búið er að stela af þeim. Hann hefur reynst einstaklega laginn við þá iðju og hlaut því viðurnefnið hjólahvíslarinn.

Tími til að sinna öðrum málum

Bjartmar, sem hefur endurheimt fjöldan allan af reiðhjólum, hefur nú sagt óformlega starfi sínu lausu enda hefur hann öðrum hnöppum að hneppa.

„Í kvöld klárar hjólahvíslarinn þessa vakt í bili og yfirgefur síðuna. Það er kominn tími á frí, tími til að sinna öðrum málum,“ segir í tilkynningu Bjartmars sem birtist á Facebook-síðunni Hjóladót og.fl. Tapað, fundið eða stolið.

Ef marka má tilkynningu Bjartmars eru reiðhjól borgarbúa þó enn í öruggum höndum þar sem „fullt af fólki“ býr yfir upplýsingum um hvar megi oftast finna hjólin sem hverfa. 

mbl.is