Mia er rokkstjarnan okkar

Kvennahópurinn góði og sjósundskonurnar íslensku, geislandi kátar á bryggju í …
Kvennahópurinn góði og sjósundskonurnar íslensku, geislandi kátar á bryggju í Færeyjum, en ferðin sú var einstaklega vel heppnuð.

Að fara til Færeyja og hitta Miu og synda þar með henni í sjónum er grilla sem nokkrar innan okkar hóps fengu í vetur þegar við vorum einu sinni sem oftar að synda í sjónum hér við Íslandsstrendur. Við létum verða af þessu núna í vor og sjáum ekki eftir því,“ segir Gróa Kristjánsdóttir sjósundskona en hún er ein af þeim þrjátíu og einni konu sem eru nýkomnar heim eftir ævintýraferð til Færeyja þar sem erindið var nokkurskonar pílagrímsför, að heimsækja hina stórmerku færeysku konu, Mariu á Heygum, eða Miu, en hún er 98 ára sjósundskona.

„Mia er alveg mögnuð kona og okkar fyrirmynd. Hún var alveg til í að taka á móti okkur, en hún býr núna á hjúkrunarheimili í heimabæ sínum Vestmanna, enda á hún aðeins tvö ár í að verða hundrað ára. Við þurftum aðeins að ganga á eftir því að fá leyfi til að heimsækja hana og synda með henni í sjónum. Þetta er æðislegt hjúkrunarheimili sem stendur rétt við sjóinn svo það eru hæg heimatökin fyrir Miu að fara í sitt sjósund, aðeins örstuttur göngutúr niður að sjó. Hún fer ennþá á hverjum einasta degi í sjóinn, rétt eins og hún hefur gert undanfarin sextíu ár.“

Mia er einstök. Hér kemur hún upp úr sjónum eftir …
Mia er einstök. Hér kemur hún upp úr sjónum eftir að hafa farið í hann með íslensku konunum.

Veik og gat ekkert borðað

Gróa segir að Mia hafi byrjað að stunda sjósund í kjölfar þess að hún eignaðist Rúnu, dóttur sína.

„Þá varð hún mjög illa haldin, bæði andlega og líkamlega, væntanlega af því sem við köllum fæðingarþunglyndi í dag. Hún var rosalega veik, gat ekki haldið á barninu eða sinnt því og hún gat ekki matast og léttist um mörg kíló. Maðurinn hennar stakk upp á að hún færi að stunda sjósund til að reyna að ná heilsu á ný, og hún lét tilleiðast. Eftir að hafa synt í sjónum daglega í þrjá mánuði fór henni að líða betur. Hún er afar þakklát hafinu að hafa bjargað sér úr þessum erfiðleikum og hún á í einstöku sambandi við sjóinn, sem hún hefur baðað sig í alla daga lífs síns síðan. Núna fær hún ekki að fara ein í sjóinn, en aðstoðarfólk á hjúkrunarheimilinu fer alltaf með henni, til að gæta fyllsta öryggis, enda Mia orðin háöldruð og er í þeirra umsjá. Okkur fannst aðdáunarvert að sjá starfsfólkið styðja hana þar sem hún þurfti að fara niður brattar tröppur til að komast á bryggjuna og í sjóinn, og upp aftur. Þetta gerði Mia eins og ekkert væri. Við lítum allar upp til hennar og okkur fannst frábært að fá að hitta þessa 98 ára gömlu hetju, enda vorum við í raun að hitta okkar helstu rokkstjörnu. Hún knúsaði okkur allar og var með tárin í augunum og jesúsaði sig í bak og fyrir, hrærð yfir því að svona margar konur frá Íslandi kæmu sérstaklega til að heimsækja hana. Hún sagðist ekki skilja í því að við vildum hitta hana svona gamla, en við sögðum henni sannleikann, að við viljum allar vera eins og hún þegar við verðum gamlar,“ segir Gróa og bætir við að sannarlega þyrfti að koma upp hér á Íslandi hjúkrunarheimilum við sjávarsíðuna, rétt eins og það sem Mia dvelur á, svo eldra fólk hefði aðgengi að sjónum.

Gróa prjónaði vettlinga handa Miu og færði henni. Þeir eru …
Gróa prjónaði vettlinga handa Miu og færði henni. Þeir eru með íslenska og færeyska fánanum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »