Ólafur Ragnar á vakt í Staðarskála

Aldrei dauð stund, segir Ólafur Ragnar Eyvindsson um starf sitt …
Aldrei dauð stund, segir Ólafur Ragnar Eyvindsson um starf sitt í veitingaskálanum vinsæla. mbl.is/Sigurður Bogi

Stemningin er góð og á matseðlinum er strangheiðarlegur íslenskur matur. Þetta er lýsingin á stöðu mála í Staðarskála í Hrútafirði þar sem nýr rekstrarstjóri tók við keflinu fyrir nokkrum mánuðum. Sá heitir Ólafur Ragnar Eyvindsson meistarakokkur úr Reykjavík sem um dagana hefur víða starfað við eldamennsku og matargerð. Eftir að hafa starfað bæði við veitingahús og mötuneyti í Reykjavík til fjölda ára lá leið hans norður – og flestir stansa í Staðarskála, eins og slagorðið hermir. Þangað kom Ólafur til starfa um þetta leyti í fyrra og árið var ekki úti þegar honum bauðst að taka við keflinu og stýra starfseminni.

Ástapungar standa fyrir sínu  

„Starfið er líflegt. Aldrei dauð stund og hér sér maður í raun samfélagið í hnotskurn. Hér er opnað klukka átta á morgnana og vaktin staðin fram til klukkan hálftólf á kvöldin. Hér eru margir í mat, til dæmis í hádegi og svo aftur síðdegis og fram eftir kvöldi, en þá stoppa hér til dæmis bílstjórar á stóru flutningatrukkunum sem eru í ferðum milli landshluta. Steiktur fiskur, kjöt í karrí og kjúklingur svo ég nefni eitthvað,“ segir Ólafur Ragnar.

„Matseðillinn hér er fjölbreyttur en breytilegur milli daga. Ástarpungar með kaffinu standa líka alltaf fyrir sínu. Yfir daginn er umferðin hér annars nokkuð jöfn. Mesti kúfurinn í vikunni er síðdegis á föstudögum þegar fólk af höfuðborgarsvæðinu er á leiðinni norður – það sama og stoppar hér á suðurleið þegar líða tekur á sunnudaginn. Á allra bestu dögum yfir sumarið hafa um 9.000 manns farið í gegnum húsið á einum degi."

Miðstöð mannaferða

Miðstöð mannaferða, segir Þórarinn Eldjárn í ljóði sínu Staðarskáli er Ísland. Í ljóðinu lýsir skáldið veitingaskálanum með mörgum orðum – stað sem nálgast að vera þjóðarsjoppa Íslendinga. Sá sess sem staðurinn hefur ræðst sjálfsagt að einhverju leyti af staðsetningu, það er því sem næst miðja vegu milli Reykjavíkur og Akureyrar og í jaðri Holtavörðuheiðar – sem oft verður ófær á veturna. Af því leiðir að í skipulagi almannavarna hefur skálinn neyðarhlutverk og á illviðradögum bíður fólk þar af sér vonda veðrið; stundum klukkustundum saman.

Bensín- og olíudælur N1 eru við Staðarskála auk hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla. Fleiri slíkum verður bætt við á næstunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »