Slasaðist við eggjatöku

Liðsmenn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar að störfum. Myndin er úr safni.
Liðsmenn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar að störfum. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður sem var að síga í Skoruvíkurbjörgum á Svínalækjartanga á Langanesi, þar sem hann var við eggjatöku, fékk grjót í sig og slasaðist á öxl.

Útkall vegna slyssins barst Slysavarnarfélaginu Landsbjörg laust fyrir klukkan 14 í dag, að sögn upplýsingafulltrúans Davíðs Más Bjarnasonar.

Liðsmenn björgunarsveitarinnar Hafliða frá Þórshöfn fóru af stað ásamt sjúkraflutningamönnum en ekki þurfti að síga eftir manninum þar sem hann náði að koma sér aftur upp af sjálfsdáðum. Maðurinn var í kjölfarið fluttur á brott með sjúkrabíl.

Sóttu vélarvana bát

Landsbjörg barst önnur tilkynning upp úr hádegi um vélarvana bát úti við Siglufjörð.

Að sögn Davíðs Más fór björgunarskipið Sigurvin frá Siglufirði á vettvang, tók bátinn í tog og dró hann að bryggju. Verkefnið var leyst á innan við klukkutíma.

mbl.is