Afsökunarbeiðni ekki næg sönnun fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ljósmynd/Þór

Karlmaður var síðasta föstudag sýknaður af nauðgun í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sagði í niðurstöðum dómsins að sekt mannsins yrði ekki sönnuð svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa.

Segir í ákæru að meint brot hafi átt sér stað aðfaranótt laugardagsins 5. desember 2009. Ákærði hafi stungið fingri inn í leggöng konunnar og skömmu síðar haft við hana samræði en að konan hafi ekki getað spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Segist hafa vaknað með fingur í leggöngunum

Í málavöxtum dómsins segir að kvöldið 4. desember 2009 hafi brotaþoli og ákærði, sem unnu saman á þeim tíma, farið ásamt vinnufélögum á veitingastað í miðborginni. Þar hafi áfengi verið haft um hönd og hópurinn haldið áfram að skemmta sér fram eftir nóttu. Þegar leið á nóttina hafi ákærði boðið brotaþola heim til sín en hún talið að fleiri myndu koma á staðinn.

Konan var þreytt þegar kom á staðinn og lagði sig. Hún sagði að síðar um nóttina hafi hún rankað við sér og þá hafi ákærði verið með fingur í leggöngum hennar. Hún var ringluð, svefndrukkin og ölvuð og leið út af aftur. Þegar hún rankaði við sér að nýju var ákærði búinn að afklæða hana og hafði við hana samræði.

Konan segist hafa brugðist harkalega við og gripið um háls ákærða sem hafi þá gert sér upp meðvitundarleysi eða áfengisdauða og þóttist ekki sýna nein viðbrögð. Konan fór síðan heim til kærasta síns, sagði honum hvað gerðist og þau fóru á heimili ákærða daginn eftir en hann kom ekki til dyra.

Sagði kæruna setta fram til stuðnings annarri konu 

Við skýrslutöku í maí 2020 sagði ákærði að þau hefðu haft samræði heima hjá honum en með fullu samþykki og þátttöku beggja. Því hafi síðan lokið þegar brotaþoli ýtti honum frá sér og kvaðst vilja hætta. Kannaðist hann ekki við lýsingu brotaþola á meintu broti samkvæmt skýrslu hennar fyrir lögreglu.

Kvaðst ákærði auk þess telja að kæra brotaþola væri sett fram í annarlegum tilgangi til stuðnings annarri kæru á hendur honum frá annarri konu vegna meints brots af sama toga.

Messenger-samskipti ekki nógu afgerandi

Fram kemur í niðurstöðum dómsins að gögn sem brotaþoli hafði lagt fram um Messenger-samskipti hennar og ákærða gæfu efnislega að nokkru marki vísbendingar um að ákærði kunni að hafa brotið kynferðislega gegn brotaþola í greint skipti. Sagði hins vegar að gögnin væru út frá orðanna hljóðan ekki alveg afgerandi um að ákærði hefði verið að viðurkenna meint kynferðisbrot.

Í skeyti á Messenger frá ákærða til brotaþola 19. desember 2009 sagði m.a. : „...sakna þín A mín og ég get aldrei byrjað að ýminda mer [svo] hvernig ég get beðist fyrirgefningar.“

Kom einnig fram að vinslit sem urðu á milli ákærða og brotaþola gæfu vísbendingar um ætlaða sök ákærða en gætu ekki ráðið úrslitum.

Þá sagði dómurinn að við sönnunarmatið væri ekki hægt að líta til atriða sem fram hafa komið undir rekstri málsins, óbeint, um önnur meint brot ákærða af svipuðum toga gagnvart öðrum brotaþolum, eins eða fleiri, sem voru til rannsóknar hjá lögreglu.

 Dóminn í heild sinni má lesa hér.

mbl.is