Fari í gegnum nálarauga verkalýðsfélaganna

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segir flóttamannakerfið hér á landi mun sveigjanlegra …
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segir flóttamannakerfið hér á landi mun sveigjanlegra en á Norðurlöndunum. mbl.is/Hallur Hallsson

„Við höfum sennilega hlutfallslega af öllum löndum í Evrópu verið að veita hérna flestum vernd á grundvelli þessa flóttamannakerfis eða um 450 manns á síðasta ári, sem er tíföldun frá því fyrir svona 8-9 árum,“ segir Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, í samtali við mbl.is varðandi þá þrjú hundruð flóttamenn sem vísa á úr landi.

„Hitt er svo annað, fólk sem kemur hér utan EES svæðisins sem er að leita sér að dvalar- og atvinnuleyfi og það er allt annað kerfi. Það er félags- og vinnumarkaðsráðherra sem hefur með það að gera.

Í dag búum við það kerfi að fólk sem kemur þaðan og vill leita eftir vinnu hérna þarf að fara í gegnum nálarauga verkalýðsfélaganna til að hljóta hér samþykki. Það er frekar undartekning heldur en hitt að verkalýðsfélögin samþykki þetta. Flestir eða allir í þessari ríkisstjórn eru hlynntir því að breyta þessu,“ segir Jón Gunnarsson en á Alþingi í gær var ríkisstjórnin gagnrýnd fyrir að senda vinnufúsar hendur úr landi á meðan vöntun er á fólki í ferðamannaiðnaðinn. 

„Það er áætlað að það komi hingað 10 þúsund manns í ár til þess að vinna. Það er þá fólk sem kemur hingað frá Evrópusambandinu að mestu leyti, það er mesti flutningur á vinnandi afli til landsins sem nokkru sinni hefur verið.“

Skýr áköllun að breyta útlendingalögum

„Þetta er þá skýr áköllun eftir því að við breytum þessum útlendingalögum og þær reglur sem gilda um verndarkerfið sem er alþjóðlegt. Hvergi annars staðar er fólki veitt atvinnuleyfi á meðan það er í umsóknarferli um vernd,“ segir Jón um gagnrýni síðustu daga.

Hann segir að í þessu tilfelli væri búið að synja þessu fólki um vernd. Beiðni þessa fólks hafi farið í gegnum stjórnsýslulega meðferð Útlendingastofnunar sem var svo áfrýjað til úrskurðarnefndar útlendingamála, sem bæði komust að þeirri niðurstöðu að það sé ekki þörf á að veita þessum einstaklingum vernd.

„Kerfið okkar er miklu sveigjanlegra heldur en er á Norðurlöndunum. Við sjáum það bara að hlutfallslega eru miklu fleiri að fá vernd á Íslandi heldur en í þessum löndum sem við berum okkur saman við, til að mynda Norðurlöndin,“ segir Jón.

„Fólki er veitt vernd ef það er í bráðri hættu í landinu sem það kemur frá.“

mbl.is