Hagsmunir öskri á aðildarviðræður við ESB

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert

Hagsmunir Íslands kalla á, öskra á, að við tökum utanríkisstefnu okkar til endurskoðunar með það fyrir augum að sækjast eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í dag.

Hanna benti á að samskipti og samstarf Norðurlandanna hafi undanfarið eðlilega litast mjög af innrás Rússa í Úkraínu og hótunum í garð annarra Evrópulanda. 

Nú hafa bæði Svíar og Finnar sótt formlega um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Það má segja að þessar tvær þjóðir hafi verið með nokkurs konar aukaaðild að bandalaginu líkt og Ísland og Noregur hafa haft að Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Svíar og Finnar hafa þannig tekið þátt í æfingum NATO og átt samráð en hvorki komið að ákvarðanatöku né notið að fullu þess öryggis sem aðildin veitir,“ sagði Hanna.

Hún sagði að það mætti læra af Finnum og Svíum sem hafi ákveðið að stíga skrefið til fulls með því að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Hægt að bregðast hratt við

Það er ljóst að NATO-aðild Svía og Finna mun breyta ákveðnu jafnvægi sem ríkt hefur í samskiptum Norðurlandanna þar sem þessar þjóðir hafa verið innan Evrópusambandsins og utan NATO en Ísland og Noregur innan NATO en utan Evrópusambandsins. Eingöngu Danmörk hefur verið fullgildur þátttakandi á báðum vígstöðvum, einhvers konar þungamiðja í samstarfinu. Þessi staða verður gjörbreytt þegar NATO-aðild Svía og Finna verður að veruleika og allar líkur á því að samskipti þjóðanna fimm muni taka einhver mið af því,“ sagði Hanna.

Hún sagði ákvörðun Finna og Svía um aðildarumsókn að Atlantshafsbandalaginu vera tekna eftir nokkurra vikna umræður en byggi á víðtæki samráðu. Hægt sé að bregðast hratt við þegar aðstæður þjóða krefjist þess án þess þó að fagmennska eða nauðsynleg pólitísk umræða sé undanskilin.

Evrópusambandið leikur lykilhlutverk í þeirri heimsmynd sem við búum við og munum búa við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert